Ólíkt öðrum gosbeltum og því erfitt að meta framhaldið

Freysteinn Sigmundsson á blaðamannafundi almannavarna í dag.
Freysteinn Sigmundsson á blaðamannafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Almannavarnir

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og forseti jarðvísindadeildar HÍ, segir jarðhræringarnar á Reykjanesskaga óvenjulegar þegar litið er til fyrri eldgosa.

„Það sem er sérstakt við þetta er að á Reykjanesskaganum virðist vera enn sterkara samspil á milli jarðskjálfta vegna flekahreyfinga og kvikuhreyfinga, og það veldur enn meiri óvissu hvað varðar mat á framhaldi atburðarásarinnar,“ segir Freysteinn í samtali við mbl.is. Mikil spenna sé á svæðinu vegna flekahreyfinga.

„Það er í raun þetta samspil sem er erfitt að meta á skaganum.“

Hann segir Reykjanesskagagosbelti nokkuð ólíkt öðrum gosbeltum landsins, og því sé óróinn þar nú nokkuð óvenjulegur miðað við önnur belti sem vísindamenn hafa fylgst með.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þess vegna höfum við ekki fylgst með svona umbrotum áður í þessu belti. Við höfum verið að horfa á þetta í öðrum eldgosabeltum; Eyjafjallajökli, Grímsvötnum, Holuhrauni og Kröflu, það eru allt hefðbundin gosbelti. En á Reykjanesskaga er flekarekið öðruvísi,“ segir Freysteinn.

Minni hætta en af sprengigosi

Á almannavarnafundi í dag kom fram að ef gjósa myndi á svæðinu yrði ekki sprengigos, heldur myndi gosið renna sem hraun. Freysteinn segir miklu minni hættu vera af rennandi hrauni en sprengigosi.

„Bæði eru miklu minni áhrif á flugumferð og líf og athafnir fólks, því þetta hraungos yrði í óbyggðum ef það kæmi upp þar sem þessi virkni hefur verið.“

Hann segir afar ólíklegt að hraunið renni yfir innviði, þegar litið er til líkansreikninga.

„En það fer eftir því hvar gosið kemur upp, ef það þróast yfir í eldgos. Um það ríkir óvissa, en líklegasta svæðið er þannig að þetta verði ekki til trafala hvað innviði varðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert