Segir þjarmað að ráðherra á sorgarstundu

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks segir of langt gengið þegar þjarmað sé að ráðherrum og þingmönnum á sama tíma og þeir syrgi látna ástvini.

Ásmundur steig í ræðustól Alþingis nú eftir hádegi og sagðist vilja ræða virðingu þingsins, sem snúist ekki síst um framkomu þingmanna gagnvart hver öðrum.

„Oftar en ekki eru þeir þingmenn sem mest tala um virðingu þingsins þeir sem draga hana einmitt niður með orðræðu sinni og framkomu gagnvart fjölmiðlum, reglum og skyldum okkar sem þingmenn, eins og nýleg dæmi sanna,“ sagði Ásmundur.

Fjölskyldan ekki fengið svigrúm

Sorglegt væri hvernig þingmenn kæmust upp með að sýna vanvirðingu sína gagnvart Alþingi með óviðeigandi klæðaburði.

En hann sagðist einnig vilja gera athugasemd við það, hvernig framkomu þingmenn mættu þola þegar andlát yrði í náinni fjölskyldu þeirra.

„Nýlega missti hæstvirtur heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir föður sinn. Ráðherra og fjölskylda hennar fékk ekki svigrúm til að syrgja látinn föður og afa. Ráðist var á embættisfærslur ráðherrans í fjölmiðlum og hér í þingsal þegar hún hefði átt að fá frið til að syrgja með fjölskyldu sinni,“ sagði Ásmundur.

Engin grið gefin

Hélt hann áfram og sagði það sama hafa gerst þegar Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, missti móður sína.

Benti hann á að fyrir tveimur árum hefði Mannréttindadómstóll Evrópu kveðið upp dóm í Landsréttarmálinu.

„Það varð nokkrum þingmönnum tilefni til að gagnrýna þáverandi hæstvirtan dómsmálaráðherra um leið og fréttin flaug um ljósvakana, sem létu sitt ekki eftir liggja. Sama dag lést móðir ráðherrans í faðmi fjölskyldunnar og mátti [ráðherrann] þola harða gagnrýni þingmanna og fjölmiðla, allan daginn og engin grið gefin.

Traustið aldrei meira en virðingin

Það er of langt gengið, virðulegi forseti, þegar svona er þjarmað að ráðherrum og þingmönnum af samþingsmönnum og fjölmiðlafólki á sorgarstundu,“ sagði Ásmundur að lokum.

„Traust yfir störfum okkar, sem hér sitjum í krafti kjósenda, verður aldrei meira en sú virðing sem við sýnum hvert öðru og Alþingi sem æðstu stofnun landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert