Vakta brennisteinsmengun í Vogum

Umhverfisstofnun ráðleggur fólki á Reykjanesi að halda sig innandyra með …
Umhverfisstofnun ráðleggur fólki á Reykjanesi að halda sig innandyra með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu. Sé farið út er best að anda sem mest með nefinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhverfisstofnun hefur sett upp tækjabúnað í Vogum á Vatnsleysuströnd til að mæla styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) í andrúmslofti. Er þetta gert vegna gasmengunar sem búast má við ef til eldgoss kemur á Reykjanesi. Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að mælar verði settir upp í fleiri bæjum á Reykjanesi eins fljótt og auðið er.

Fylgjast má með loftgæðunum á heimasíðunni loftgaedi.is. Loftgæði í Vogum eru góð þessa stundina, enda ekkert gos hafið. Styrkur brennisteinsvetnis (H2S) mældist 0,7 µg/m^3 og styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) 1,5 µg/m^3 nú klukkan 22.

Þetta gæti þó breyst hratt ef gos hefst. Stofnunin ráðleggur íbúum Reykjaness eftirfarandi, ef eldgos verður:

  • Lungna- og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk
  • Andið sem mest með nefi og forðist líkamlega áreynslu utandyra í mikilli mengun því það dregur úr SO2 sem kemst niður í lungu.
  • Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
  • Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun. Vísindamenn og viðbragðsaðilar sem eru við vinnu nálægt gosstöðvum þurfa að hafa tiltækar gasgrímur með kolafilter og gasmæla sem vara við hættulega háum styrk.
  • Fjær eldstöðvum er gasmengun venjulega ekki lífshættuleg en getur valdið óþægindum, sérstaklega hjá þeim sem hafa undirliggjandi sjúkdóma.

Umhverfisstofnun bendir á að heilsuverndarmörk fyrir brennisteinsdíoxíð (SO2) eru um 350 µg/m^3 og fyrir sólarhring séu heilsuverndarmörkin 125 µg/m^3. Fari meðaltalsstyrkur yfir 500 µg/m^3 sé talað um viðvörunarmörk.

Eftirfarandi tafla sýnir þau áhrif sem búast má við að það hafi á fólk að dvelja 10-15 mínútur við tiltekna mengun. Áhrifin eru háð þeim tíma sem fólk verður fyrir menguninni og vari sá tími lengur má búast við meiri áhrifum á heilsu en taflan segir til um.

Undir flokkinn einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma og viðkvæmir einstaklingar teljast …
Undir flokkinn einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma og viðkvæmir einstaklingar teljast fullorðnir með astma, berkjubólgu, lungnaþembu og hjarta- og æðasjúkdóma, sem og barnshafandi konur. Tafla/Umhverfisstofnun
mbl.is