Vill að fólk haldi ró sinni

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. Ljósmynd/mbl.is

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segir að íbúar séu margir orðnir þreyttir á jarðhræringunum á Reykjanesskaga á meðan aðrir taki þessu með meiri léttúð. Jörð hefur nú skolfið í eina átta daga frá því að skjálftahrinan hófst og nú lítur út fyrir að fari að gjósa. 

Fannar fundaði með sviðsstjórum hinna ýmsu deilda innan bæjarstjórnarinnar ásamt viðbragðsaðilum í kvöld. 

„Við vorum, jú, á síðasta fundinum. Við höfum verið að funda reglulega í allan dag með viðbragðsaðilum og fara yfir rýmingaráætlanir okkar og undirbúa morgundaginn og stilla saman strengina.“

Viðbragðsaliðar eru við öllu búnir, segir Fannar, sem fundaði með …
Viðbragðsaliðar eru við öllu búnir, segir Fannar, sem fundaði með þeim í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir komnir með nóg

Fannar segir misjafnt eftir fólki hvort því líði bærilega vegna atburða liðinnar viku eða hvort það hafi fengið sig fullsatt. Ekki bæti nýjustu fréttir úr, um að hugsanlega fari að gjósa skammt frá bænum. 

„Þetta er nú að vísu í um 10-15 kílómetra fjarlægð og við erum þar að auki með fjallgarð á milli upptökusvæðisins og Grindavíkur. Þannig það er lítil hætta á ferðum fyrir okkur. Og gasið sem kæmi upp yrði orðið svo útþynnt þegar það kæmi hingað inn í bæinn að það eru allar líkur á að það valdi ekki nema minniháttar óþægindum tímabundið.“

Fannar segir að bæjarstjórnin og viðbragðsaðilar séu vel saman stillt og að flottur hópur sé vel undir allar sviðsmyndir búinn. Spurður hvort hann hafi einhver skilaboð til íbúa svæðisins segir Fannar að fólk verði að halda ró sinni, fyrst og fremst.

„Það er best að fylgjast vel með fréttum og gá hvað hver og einn geti gert á sínu heimili til þess að vera við öllu búinn. Upplýsingar um allt slíkt er að finna til dæmis á vef Almannavarna.“

mbl.is