Ættum að búa okkur undir að þetta vari lengi

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, hefur löngum velt upp hugmyndum sínum um að kominn sé tími á virkni í eldstöðum á Reykjanesskaga. Í ágúst í fyrra skrifaði Hjörleifur um landrisið sem þá mátti merkja í grennd við Þorbjörn og sagði: „Í sömu átt bendir landris á Reykjanesskaga og að innan ekki langs tíma megi þar búast við eldsumbrotum eftir goshlé sem varað hefur frá árinu 1240.

Hjörleifur segir í samtali við mbl.is að út af fyrir sig komi núverandi staða sér ekki á óvart. „Ég held að menn þurfi að horfa á þetta í víðu samhengi og búa sig undir að þetta geti varað býsna lengi eftir að þessi órói er kominn þarna [...] þetta getur tekið nokkurn tíma; ekki bara daga og vikur heldur jafnvel ár og kannski áratugi eftir að þetta kerfi er farið að gera vart við sig á nýjan leik,“ segir Hjörleifur Guttormsson. 

„Þá er ég að vísa í heimildir sem við höfum frá til dæmis 13. öld um virkni á svæðinu og sem ber vott um að þetta hafi staðið í alllangan tíma og menn voru svona að draga af því ályktanir um að þetta væri á kannski átta alda fresti,“ segir Hjörleifur og bætir við að hann telji að landið sé komið í þann fasa að núna þurfi að hugsa mat á hættunni út frá því að ástandið geti varað í býsna langan tíma.

Hvassahraun undirliggjandi jarðfræðilegri áhættu

„Mér hefur komið á óvart sem áhorfandi af þessu að menn fjalli ekki meira um hættuna sem stafar að okkar alþjóðaflugvelli í Keflavík, ekki flugvellinum sjálfum heldur bara samgöngum til og frá Keflavík og höfuðborgarsvæðinu. [...] Síðan hafa menn verið að athuga um einhvern nýjan eða varaflugvöll þá um Hvassahraun og það hefur komið leikmanni eins og mér spánskt fyrir sjónir því að það er ljóst á heimildum að Hvassahraun og það umhverfi er undirliggjandi svona jarðfræðilegri áhættu,“ segir Hjörleifur.

Þá segir hann að allt tal og undirbúningur um að  flugvöllurinn í Vatnsmýrinni í Reykjavík ætti að víkja fyrir íbúabyggð sé ekki tímabær fyrr en menn séu komnir með einhverja aðra frambærilega lausn. „Sem væri á tryggum stað og gæti þjónað samgöngum við Reykjavík sem höfuðborg líka  og stjórnstöð í landinu.“

Keilir á Reykjanesskaga.
Keilir á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðsagan gengur eftir öðrum lögmálum

„Ég er þess hvetjandi að menn skoði [viðbrögð við óróa á Reykjanesskaga] í víðu samhengi og taki þetta semsagt alvarlega með tilliti til lengri tíma litið. Því jarðsagan gengur eftir öðrum lögmálum en hið daglega líf.

Hætta vegna eldvirkni er auðvitað víða eins og við þekkjum og það er nærtækt að minna á Öræfajökul og Kötlu sem hafa valdið búsifjum ekki bara í næsta nágrenni með afgerandi hætti með öskufalli sem hefur borist víða. Það er um að gera að reyna að skipuleggja bæði í stóru og smáu miðað við okkar aðstæður og okkar umhverfi,“ segir Hjörleifur.

mbl.is