Landsréttur snýr við dómi fyrir kynferðisbrot

Maðurinn var sýknaður í Landsrétti eftir að hafa fengið fimm …
Maðurinn var sýknaður í Landsrétti eftir að hafa fengið fimm mánaða skilorðsbundinn dóm í héraði. mbl.is/Hallur

Landsréttur hefur sýknað karlmann af ákærum um kynferðislega áreitni gegn stjúpdóttur sinni. Maðurinn hafði í héraðsdómi verið fundinn sekur um brot samkvæmt einum ákærulið og dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Ákærður fyrir langvarandi brot

Maðurinn var ákærður í þremur liðum. Fyrir það fyrsta var honum gert að sök að hafa tekið niður buxur og nærbuxur stjúpdótturinnar og strokið kynfæri hennar á meðan hún svaf á aðfangadagskvöld jólin 2007 eða 2008, þegar stúlkan var níu eða tíu ára gömul.

Þá var hann ákærður fyrir að hafa ítrekað á árunum 2009-2011 látið hana sitja í fangi sínu meðan hann leyfði henni að keyra bílinn sinn og á meðan haft hendur sínar innan á klæðum hennar og strokið brjóst hennar.

Að síðustu var hann ákærður fyrir að hafa sumarið 2014 farið inn í herbergi þar sem stúlkan, sem þá var orðin 16 ára, svaf og dregið niður hlýrabol hennar og berað á henni brjóstin.

Hafði skrifað um brotin í dagbók

Konan, sem nú er 23 ára, lagði fram kæru árið 2017 en hún hafði þá trúað kærasta sínum fyrir brotunum. Meðal gagna sem lögð voru fram við rannsókn málsins voru sálfræðiviðtöl þar sem fram kom að konan uppfyllti viðmið fyrir eina eða tvær „þunglyndislotur“ en ekki greiningarviðmið fyrir klínískan vanda.

Þá voru ýmis vitni kölluð til, meðal annars föðuramma stúlkunnar, sem hún hafði dvalið langdvölum hjá, þar á meðal hálfan vetur þegar hún var tólf ára. Sagði hún frá dagbókarfærslu stúlkunnar sem hún hefði komist yfir þegar stúkan var 12-13 ára gömul en þar stóð eitthvað á þessa leið: „æ, æ, mér líður svo illa, ég get ekki sagt mömmu hvað hann [nafn stjúpföður] gerði mér.“ Sagðist amman hafa rætt þetta við stúlkuna en hún ekki viljað tjá sig. Þá hefði hún fengið hnút í magann, frosið og svarað neitandi þegar móðir hennar spurði hana einhverju sinni hvort stjúpfaðirinn hefði gert henni eitthvað.

Vissi ekki hvort hann hefði brotið gegn stúlkunni

Maðurinn neitaði sök af öllum ákæruliðum. Fyrir héraðsdómi kannaðist hann ekki við framburð stúlkunnar, en greindi þó frá einu tilviki þar sem nærbuxur hennar hefðu dregist niður um hana fyrir tilstilli hans. Það hefði þó ekki verið ætlunin.

Af skýrslutöku ákærða hjá lögreglu í september 2017 má þó sjá að framburður mannsins var ósannfærandi. Þegar hann er beðinn að upplýsa um afstöðu sína til sakarefnisins svarar hann: „Veit það ekki, bara veit það ekki.“

Spyr lögreglumaður þá hreint út hvort hann játi brotið eða neiti því og fær sama svar. Síðar í yfirheyrslunni svarar hann sömu spurningu með „Ég vil ekki trúa því að ég hafi gert það. Ég bara hreinlega veit það ekki.“

Sagðist vera „viðbjóður“

Móðir stúlkunnar, sem var gift manninum, skildi við hann eftir að dóttirin greindi frá meintum brotum og lagði fram ákæru. Fyrir dómi greindi hún frá því að þegar dóttirin hefði lagt fram kæruna hefði maðurinn sagt um sjálfan sig að hann væri „viðbjóður“ eða „á vondum stað“ og að hann vildi að hann gæti „tekið þetta til baka“. Þá hafi hann jafnframt sagt konunni að hún skyldi auðvitað „velja barnið sitt“ frekar en hann. Kvaðst móðirin ótvírætt hafa skilið það sem svo að eiginmaðurinn fráfarandi hefði gengist við brotum sínum.

Var hann á þeim forsendum sakfelldur fyrir brot gegn fyrsta lið ákærunnar í héraðsdómi, en Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu sem fyrr segir við á þeim forsendum að ekki hefði komið fram „lögfull sönnun“ þess að maðurinn hefði brotið af sér. Ekkert þeirra vitna sem kom fyrir dóminn hafi með beinum hætti getað borið um þau atvik sem ákæran var byggð á og því stærði eftir orð gegn orði.

Dóminn má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert