Þolinmæði foreldra á þrotum

Fossvogsskóli í Reykjavík.
Fossvogsskóli í Reykjavík. mbl.is/Eggert

„Ég myndi segja að mjög margir foreldrar séu að vakna við vondan draum núna og átta sig á því að veikindi sem börnin þeirra hafa verið að glíma við eru út af þessari myglu,“ segir Magnús Pálmi Örnólfsson, faðir stúlku í Fossvogsskóla, í samtali við Morgunblaðið. Hann segist sjálfur nýlega hafa áttað sig á því að dóttir sín væri lasin vegna myglunnar og hefur þegar gert kröfu um að dóttur sinni verði ekki kennt í ákveðnum stofum skólans.

Foreldrar stilla saman strengi

„Við höfum kannski gert allt of lítið af því hingað til að stilla saman strengi og tala saman. Nú er búið að virkja alla árganga, foreldrar eru að safna saman upplýsingum um þessi veikindi, vegna þess að borgin hefur aldrei verið til í það að kanna umfang veikindanna,“ segir Magnús.

Hann segir skólann ekki hafa viljað gefa foreldrum upplýsingar um veikindi barna sem liggja fyrir og bera fyrir sig persónuverndarsjónarmið.

„Sjöfaldaðu fjöldann“

„Foreldrar safna nú saman þessum upplýsingum og ég myndi halda að það liggi fyrir frekar fljótlega í þeirri viku sem er að fara af stað.

Hingað til hefur verið talað um örfá börn – fimm til tíu – ég myndi halda að miðað við það sem ég hef séð muni koma í ljós að þetta séu um fimm til tíu í hverjum árgangi, þannig að sjöfaldaðu fjöldann.“

Magnús segir ljóst að sú álma skólans sem heitir Austurland sé langsamlega verst farin af myglu.

„Ef þú lest greiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands á þessu ógeði sem er í þessum skóla, þá getur þú ekki komist að annarri niðurstöðu en bara að innsigla skólann núna og finna lausn. Þú bara getur ekki sett 350 börn í þetta ógeð á hverjum degi.

Það á að loka í skólanum núna – hvernig við leysum málið síðan, í samhengi hlutanna, er nánast aukaatriði,“ segir Magnús.

Enn einn „samráðsfundurinn“

Í dag er fyrirhugaður samráðsfundur skólaráðs Fossvogsskóla, fulltrúa skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um mál Fossvogsskóla. Í skólaráði eiga sæti skólastjóri, tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara og tveir fulltrúar starfsfólks. Magnús segist ekki vongóður um að slíkur fundur skili neinu, fyrir honum sé þetta „bara enn einn fundurinn“.

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla, segir að kallað hafi verið eftir því að í framhaldi af fundinum verði haldinn annar slíkur fyrir foreldra og skólasamfélagið til að upplýsa hvað standi til að gera, bregðast við og svara fyrirspurnum.

„Borgin hefur ekki nýtt þessa skólaráðsfundi sem raunverulega samráðsfundi. Þetta hafa verið fundir þar sem við höfum verið upplýst um hvað þau hafa fundið og hvað þau ætla að gera og við höfum ekki haft mikil áhrif á það nema þeim henti. Samráðið hefur verið algjörlega undir þeim komið og það hafa liðið allt að níu mánuðir á milli þessara svonefndu samráðsfunda vegna þess að það hefur ekki hentað að við séum með í ráðum,“ segir Karl Óskar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert