Fór smitaður á æfingu í World Class

World Class í Laugum.
World Class í Laugum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls eru 28 iðkendur World Class komnir í sóttkví. Ástæðan er sú að einn þeirra sem greindust með kórónuveirusmit í gær fór á æfingu í Laugum í hádeginu á föstudag án þess að vita að hann væri smitaður. 

Björn Leifsson, eigandi World Class, segir aðspurður að smitrakningarteymi almannavarna hafi fengið upplýsingar hjá þeim um hverjir voru í sóttvarnahólfi með þessum einstaklingi í hádeginu og voru þeir 28 talsins. Alls mega 50 manns vera í hverju hólfi.

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class.
Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class. mbl.is/​Hari

„Ég vona að það verði ekkert meira úr þessu, það kemur bara í ljós,“ segir Björn og bætir við að skráning í salinn sé mjög góð og því hafi verið auðvelt að finna út hverjir voru í hólfinu.

„Það hefur ekkert smit komið upp hjá okkur og á meðan svo er höldum við okkar striki,“ segir hann og tekur fram að passað sé mjög vel upp á sótthreinsun á stöðvunum.

Aðspurður segist Björn vita um þrjú smit sem komu upp í World Class í þriðju bylgjunni. Einn einkaþjálfari hafi farið í boxklúbb og smitað þrjá af sínum kúnnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert