Selur brá á leik við belg

Það var heldur betur leikur í selnum sem kom að rauðum belg á legubólinu á Brákarsundi í Borgarnesi á dögunum.

Fréttaritari Morgunblaðsins býr í húsinu Ystu Nöf og sér því vel yfir sundið. Hann hafði tekið eftir því að belgurinn hafði vakið athygli sels sem var farinn að venja komur sínar á Brákarsundið. 

Síðan var það einn daginn að selurinn fór að leika sér við belginn. Stundum blíðlega en líka með nokkrum látum og bægslagangi og gekk þetta í dágóða stund. Loks kom álftapar með tvo ársgamla unga og þegar sú fjölskylda settist á sundið þá var eins og selurinn yrði hálffeiminn við að halda leiknum áfram og sýningunni var lokið.

Belgurinn rauði á miðju Brákarsundi.
Belgurinn rauði á miðju Brákarsundi. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson
mbl.is