Upptök gossins eru í Geldingadal

Upptök eldgossins sem hófst nú fyrir rúmum klukkutíma eru í Geldingadal, sunnan Fagradalsfjalls. Hann er um 8 km norðaustur af Grindavík.

Þetta segir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Tegund eldgossins liggur ekki fyrir að svo stöddu, að hans sögn, en hann bendir á að lágskýjað sé á svæðinu. Skýjahæð þar er um 300 metrar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flýgur nú yfir svæðið, en í henni eru sérfræðingar frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands sem kanna nú svæðið.

mbl.is