Biðja fólk að halda sig fjarri svæðinu

Fólk er beðið að hafa í huga að svæðið er …
Fólk er beðið að hafa í huga að svæðið er varhugavert. Ljósmynd/Gísli Már Árnason

Almannavarnir mælast eindregið til að fólk haldi sig fjarri svæðinu umhverfis gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli á meðan vísindafólk metur enn stöðuna.

Í tilkynningu frá almannavörnum er bent á að enginn heppilegur útsýnisstaður sé í kringum gosið.

Tekið er fram að tilkynningar hafi borist frá viðbragðsaðilum á svæðinu, um illa búið fólk á gangi í átt að gosstöðvunum eins og mbl.is greindi frá eftir miðnætti í nótt.

Drónaflug bannað

„Almannavarnir biðla til fólks að hafa í huga að þetta svæði er varhugavert, bæði vegna loftmengunar frá gosi og þess að landslagið getur verið erfitt yfirferðar.“

Af öryggisástæðum er drónaflug bannað yfir gossvæðinu til hádegis í dag, laugardag, og vegna vísindaflugs gæti þurft að loka fyrir flug og drónaflug með stuttum fyrirvara næstu daga að því er fram kemur í tilkynningunni.

Gasmengun í Þorlákshöfn

Búast má við gasmengun í Þorlákshöfn í kvöld og nótt. Fólk er beðið að halda sig inni og loka gluggum. Verið er að meta stöðuna og mögulegt magn losunar brennisteinstvísýrings frá eldgosinu.

Hætta getur skapast í lægðum í landslagi fyrir þá sem fara nærri gosstöðvum og því er fólki bent á að vera ekki á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert