Bílastæði nær gosinu í skoðun

Margir hafa lagt við Grindavík og gengið þaðan. Nú er …
Margir hafa lagt við Grindavík og gengið þaðan. Nú er verið að skoða leiðir til að bæta aðstæður fyrir bíla. mbl.is/Sigurður Bogi

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir það í skoðun að búa til bílastæði austan við Festarfjall.

„Það er verið að skoða með fulltrúa landeigenda og Vegagerðinni hvort það verði fýsilegt og hvar á þessu svæði,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

Gunnar segir svæðið í námunda við Grindavík ekki ráða við þann fjölda af bílum sem hefur komið á svæðið. Bílarnir í dag hafi teygt sig langleiðina inn í Grindavíkurbæ og hvergi séu bílastæði í nágrenni Grindavíkur og Grindavíkurvegar sem taki við þessum fjölda. Því er í bígerð að búa til hugsanlegt bílastæði austan við Festarfjall.

Styttri gönguleið og stikuð leið

„Með því að hafa bílastæðið austar við Festarfjall, austan við hálsinn, styttir það til dæmis gönguleiðina og við erum með jafnvel í undirbúningi að stika leiðina þegar þar að kemur,“ segir Gunnar.

Gunnar segir að áfram verði lokun við Festarfjall sökum ástands vegarins. Það muni halda sér þannig þar til gert verður við veginn. 

„Hinum megin við hálsinn erum við að skoða vænlega staði til þess að búa til bílastæði og þar er fyrirtaks upphafsstaður fyrir göngu á gossvæði,“ segir Gunnar.

Ef vel er að gáð má ofarlega fyrir miðju sjá …
Ef vel er að gáð má ofarlega fyrir miðju sjá Geldingadal. Festarfjall er neðarlega til vinstri á kortinu og Ísólfsskáli er hægra megin við Festarfjall. Hugsanlegt bílastæði myndi þá koma á milli Festarfjalls og Ísólfsskála. map.is

Inntur um frekari staðsetningu hins hugsanlega bílastæðis segir Gunnar að verið sé að skoða svæðið milli Ísólfsskála og Festarfjalls. 

„Þá getum við líka tekið á móti umferð austan frá, þá myndum við færa lokanir austar á Suðurstrandarvegi þannig að fólk getur komið frá höfuðborgarsvæðinu og farið Krýsuvíkurveginn og Suðurstrandarveginn alveg að þessu bílastæði. Það er svona meginhugmyndin að þessu,“ sagði Gunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert