Skima börn og skylda fólk í sóttvarnahús

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Arnþór

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að skylda fólk sem kemur til landsins frá ákveðnum svæðum í sóttvarnahús við komuna til landsins. Einnig samþykkti ríkisstjórnin að taka upp skimun barna við landamærin. Aðgerðirnar taka gildi 1. apríl nk. og gilda til loka mánaðarins.

Þeir sem koma frá „eldrauðum“ svæðum í Evrópu, samkvæmt skilgreiningu Sóttvarnastofnunar Evrópu, verða skyldaðir til fimm daga dvalar í sóttvarnahúsi á milli fyrri og síðari skimunar við komuna til landsins. Einnig verða þeir sem greinast með meira smitandi afbrigði skikkaðir í sóttvarnarhús. Á þessum eldrauðu svæðum er kórónuveirufaraldurinn í hæstu hæðum, að sögn heilbrigðisráðherra. 

„Það er mjög víða í Evrópu í dag og varðar auðvitað marga en þetta snýst í raun um að það eru svo mörg dæmi um það í dag að það séu að koma jákvæð sýni í seinni skimun þannig að [þetta er gert til þess] að tryggja að sóttkvíin sé í öruggu umhverfi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um málið. 

Hún segir að það gæti tekið nokkra daga að koma þessu í kring en leigja þarf hótel og fleiri rými til þess að mögulegt sé að taka á móti fólkinu. 

„Við gerum jafnframt ráð fyrir því að þau sem greinast jákvæð með hættulegri afbrigði af veirunni sem breiðast hraðar út verði líka í sóttvarnahúsi meðan á sýkingu stendur.“

Spurð um ástæður þess að gripið sé til þessara aðgerða segir Svandís að aðgerðirnar miðist að því að hefta útbreiðslu veirunnar. Hún segir að sannarlega séu til staðar göt á landamærunum sem þurfi að stoppa í og bendir á í því samhengi að margir hafi verið að greinast smitaðir af kórónuveirunni í annarri skimun. 

Hér að neðan má lesa tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu um aðgerðirnar:

Sýnataka hjá börnum fæddum 2005 og síðar: Öll börn fædd 2005 eða síðar skulu fara í sýnatöku á landamærunum. Börn á þessum aldri sæta aðeins sóttkví ef þau ferðast með foreldrum, forráðamönnum eða einhverjum öðrum sem skylt er að fara í sóttkví samkvæmt gildandi reglum. 
Ekki er gerð krafa um að börn fædd 2005 eða síðar framvísi neikvæðu PCR-prófi við komu.

Íbúar frá áhættusvæðum dvelji í sóttvarnahúsi: Allir sem koma frá eða hafa dvalið á svæðum þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 í búa er yfir 500 skulu dvelja í sóttvarnahúsi meðan á sóttkví stendur, eða ef þeir þurfa að sæta einangrun vegna smits. Sama máli gegnir um einstaklinga sem koma frá löndum þar sem skortir upplýsingar um nýgengi smita. Þetta eru svæði sem Sóttvarnastofnun Evrópu skilgreinir annars vegar sem dökkrauð (nýgengi smita yfir 500), eða sem grá svæði (upplýsingar um nýgengi skortir). 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert