Fresta gildistöku reglugerðar um landamærin

Farþegar á Keflavíkurflugvelli.
Farþegar á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gildistöku reglugerðar um för yfir landamæri sem taka átti gildi á morgun, 26. mars, hefur verið frestað til 6. apríl. 

Frá þessu greinir Stjórnarráðið í tilkynningu. Segir í henni að ákvörðun um frestun sé tekin til að svigrúm gefist til að rýna framkvæmd á viðtöku vottorða svo hún gangi snurðulaust fyrir sig og verði í samræmi við ýtrustu varúðarráðstafanir.

Sóttvarnalæknir hafi sent tillögur um nánari leiðbeiningar um viðurkenningu vottorða og séu þær nú til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu. 

„Reglugerðin kveður á um takmarkanir ónauðsynlegra ferðalaga yfir landamæri vegna Covid-19-faraldursins. Áfram eru verulegar takmarkanir á ferðalögum til landsins, en helsta breytingin snýr að því að farþegar utan Schengen sem geta framvísað vottorðum sem íslensk stjórnvöld telja gild um bólusetningu eða vottorð um fyrri sýkingu verða undanþegnir reglum um sóttkví, en sú regla hefur hingað til einungis gilt innan Schengen-svæðisins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina