Þórólfur segir það ekki sitt að túlka lög

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

„Það er komin reglugerð sem segir til um hvað eigi að gera við fólk sem hingað kemur. Það er ráðuneytið sem setur þá reglugerð. Ef einhver vafi er á því hvort reglugerðin standist eða framkvæmd hennar eigi að vera með öðrum hætti þá er það ekki mitt að svara því. Það er ráðuneytisins,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um tvær kærur sem borist hafa Héraðsdómi Reykjavíkur vegna frelsissviptinga í farsóttarhúsum í Reykjavík. 

Greint var frá því í dag að lögmenn þeirra, sem kæra ákvörðun um að hafa verið gert að dvelja í farsóttarhúsi í sóttkví, segja að sóttvarnalæknir eigi að vera sóknaraðili mála sem látið er á reyna fyrir dómi. 

Þórólfur telur það ekki vera sitt að túlka lög eða framkvæmd laga og reglugerða og segir að ráðuneytið verði að taka þann bolta.

Jákvætt að kúrfan sé ekki upp á við 

„Við erum bara á svipuðu róli. Það eru þarna tveir sem eru að greinast fyrir utan sóttkví og það segir okkur að veiran er enn þá úti í samfélaginu. Það getur verið fólk sem sem mætir ekki í sýnatöku eða á hvaða grunni það getur verið. Þannig að við erum ekki búin að þurrka þessa veiru upp úr samfélaginu,“ segir Þórólfur um stöðuna á faraldrinum nú í dag. 

Hann segir það ekki eiga að koma á óvart að enn sé fólk að greinast í sóttkví þar sem nokkur fjöldi er í sóttkví sem hefur verið berskjaldað fyrir smiti. „Við erum alla vega ekki að sjá aukningu, ekki að sjá kúrfuna fara upp, sem er út af fyrir sig ánægjulegt. Það hefði vafalaust gerst ef ekki hefði verið gripið í taumana.“

Þórólfur segir rakningu þeirra sem greindust utan sóttkvíar í gær ganga vel en ekki enn lokið.

mbl.is