Galli í MAX-vélum hefur ekki áhrif á Icelandair

Boeing 737-MAX-flugvél Icelandair, Mývatn.
Boeing 737-MAX-flugvél Icelandair, Mývatn. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjögur bandarísk flugfélög hafa kyrrsett Boeing 737-MAX-flugvélar sínar eftir að Boeing tilkynnti vandamál í rafkerfi vélanna. Um er að ræða framleiðslugalla sem tengist ekki þeim galla sem varð valdur að tveimur mannskæðum flugslysum á síðustu árum.

Southwest Airlines kyrrsettu 30 af 58 MAX-vélum sínum, samkvæmt frétt Wahington Post, og American Airlines kyrrsettu 17 vélar af 41. United Airlines kyrrsettu 16 vélar af 30 og Alaska Airlines munu kyrrsetja allar fjórar MAX-vélar sínar.

Engin áhrif á Icelandair

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segir við mbl.is að gallinn hafi engin áhrif á MAX-vélar Icelandair.

„Já, það hefur gert það,“ segir Jens spurður hvort Icelandair hafi borist erindi um málið frá Boeing. 

„Þetta hefur engin áhrif á okkar vélar annars og virðist nú vera minni háttar vandamál. En eins og gefur að skilja gæta menn ýtrustu varkárni þegar kemur að þessum vélum. Það er verið að lagfæra þetta í þeim vélum sem þetta á við, en það eru sem sagt ekki okkar vélar,“ bætir hann við.

Jens segir að flug með MAX-vélum Icelandair hafi gengið vel eftir að það hófst aftur, en vissulega sé ekki mikið flogið vegna faraldursins. Þeir flugmenn Icelandair, sem flogið hafa vélunum, eru ánægðir að hans sögn og nú stendur endurþjálfun fleiri flugmanna yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka