Barón verður ekki sóttkvíarhótel

Fosshótel á Barónsstíg verður ekki nýtt sem sóttkvíarhótel.
Fosshótel á Barónsstíg verður ekki nýtt sem sóttkvíarhótel. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Hótel Barón við Barónsstíg verður ekki nýtt sem sóttkvíarhótel þegar hótelið við Þórunnartún fyllist. Þetta staðfestir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, í samtali við mbl.is en Vísir greindi fyrst frá.

Til stóð að hótelið yrði tekið í gagnið í dag. Framkvæmdir sem hafa staðið yfir í anddyri og veitingasal hótelsins hafa gengið hægar en vonast var til og því er húsið ekki tilbúið í að taka á móti gestum, segir Gylfi.

Um 300 manns dvelja nú á sóttkvíarhótelinu í Þórunnartúni í 221 herbergi. Rauði krossinn, sem rekur sóttkvíarhótelið, hefur 320 herbergi til umráða á hótelinu og því er vandinn ekki bráður en engu að síður gerir Gylfi ráð fyrir að hótelið muni fyllast.

Hann segir Sjúkratryggingar Íslands nú vera í viðræðum um leigu á öðru hóteli í höfuðborginni og á von á því að hægt verði að greina frá því á morgun.

Engum er skylt að taka út sína sóttkví á sóttkvíarhóteli, en þessi kostur stendur öllum sem koma til landsins til boða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert