Fjármálagreining benti til fíkniefnasölu

Lögreglan á Suðurlandi lagði fyrir skömmu hald um um það bil tvö grömm af kannabisefnum hjá manni sem er búsettur í umdæminu. Ákveðið var að rannsaka málið frekar þar sem vísbendingar þóttu um að maðurinn væri að dreifa efnum.

Í því sambandi var farið í fjármálagreiningu hjá viðkomandi og nú liggur fyrir að á um það bil tveimur árum hafa um 20 milljónir króna farið í gegnum reikninga sem tengjast honum, fyrir utan laun og aðrar útskýrðar greiðslur. 

Frá þessu greinir lögreglan á Suðurlandi í tilkynningu. 

Þar segir enn fremur, að maðurinn hafi sagt við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann kannist við brot sitt og dreifingu fíkniefna. Það skýrist af fjármögnun hans á eigin neyslu.  

Málið er enn til rannsóknar en verður að henni lokinni sent ákæruvaldi til ákvörðunar um saksókn.

mbl.is