Vísaði til samflokksmanns sem „ráðherralufsu“

Kolbeinn Óttarsson Proppé talaði um „ráðherralufsu“ á Alþingi í dag.
Kolbeinn Óttarsson Proppé talaði um „ráðherralufsu“ á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni Vinstri grænna, varð heitt í hamsi í andsvörum við Andrés Inga Jónsson, þingmann Pírata, í umræðum í þinginu um frumvarp til breytinga á skipulagslögum, sem heimila myndi stjórnvöldum að hefja framkvæmdir við flutningskerfi raforku.

Tilefni lagasetningarinnar eru truflanir sem urðu á flutnings- og dreifikerfi rafmagns í kjölfar óveðurs sem varð í desember 2019.

„Mér þykir heldur mikið hjá háttvirtum þingmanni núna, um minnimáttarkennd við löggjafa hjá löggjafanum, þótt einhver ráðherralufsa, sem ekki einu sinni á sæti á Alþingi, hafi einhverja skoðun um eitthvað. Erum við ekki löggjafinn? Takk fyrir,“ sagði Kolbeinn í andsvari við Andrés Inga.

Vísaði hann þar til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, samflokksmanns síns og umhverfisráðherra, sem á ekki sæti á þingi. Guðmundur er flutningsmaður frumvarpsins.

Vakti athygli á andstöðu Reykjavíkurborgar við frumvarpið

Lét Kolbeinn þessi orð falla eftir að Andrés vakti athygli á andstöðu Reykjavíkurborgar við frumvarpið, þar sem hann taldi það grípa inn í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna:

„Það sem getur gerst við þá breytingu sem er lögð til  með þessu frumvarpi er að ákvarðanir færist fjær almenningi og að hagsmunir sveitarfélaganna verði látnir víkja fyrir hagsmunum framkvæmdaraðilanna sem gætu kannski bara náð sátt við sveitarfélögin ef þeir vönduðu sig við það,“ hafði Andrés sagt.

Ekki ósammála um nauðsyn

Hafði Andrés vikið að því að hann væri ekki ósammála um nauðsyn þess að tryggja raforku um landið en hann vildi ekki að brotið væri gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna í leiðinni. Þá sagði hann Samband íslenskra sveitarfélaga hafa samþykkt leiðina með semingi í umsögn sinni. Kolbeinn las þá upp úr umsögn samtakanna og taldi stjórnvöld taka mið af henni.

Ummælin lét Kolbeinn falla þegar um tvær mínútur eru liðnar af myndbrotinu hér að neðan:

Andrés svaraði þá Kolbeini á þessa leið:

„Hvað einhver ráðherralufsa segir skiptir máli þegar sú meinta lufsa er ráðherra málaflokksins sem um ræðir og er til dæmis samflokksmaður framsögumanns málsins, sem er búinn að hnýta þetta hagalega inn í nefndarálit en það hefur ekki skilað sér til ráðherrans. Annaðhvort þarf Alþingi að kveða fastar að orði eða háttvirtur þingmaður að eiga orð við ráðherrann.“

Hlusta má á umræðurnar hér.

mbl.is