Þétt setið í pottunum

Mikil gleði var meðal fastakúnna Vesturbæjarlaugar í morgun, en fámennt …
Mikil gleði var meðal fastakúnna Vesturbæjarlaugar í morgun, en fámennt hefur verið þar undanfarnar vikur. Ljósmynd/Aðsend

Það var mikil gleði þegar sundlaugar landsins opnuðu dyrnar að nýju í morgun. Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir sérstaklega gaman að sjá og taka á móti fastakúnnum sem mættu brosandi í sund í morgun. 

Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra er einungis leyfilegt að hleypa helmingi af venjulegum hámarksfjölda ofan í laugarnar og teljast nú börn frá 6 ára aldri með í heildarfjölda. Hámarksfjöldi í Vesturbæjarlaug er nú 115. 

Gengur misvel að halda sóttvarnir

„Maður hefur heyrt að þessi aldurshópur sem hefur verið bólusettur virðist ekki vilja fara eftir sóttvarnatilmælum í öllum tilfellum. Maður hefur kannski örlitar áhyggjur af því,“ segir Anna Kristín. 

Anna segir flesta kúnna standa sig með prýði í sóttvörnum „en hluti þessa eldri hóps sem er orðinn bólusettur finnst hann kannski hólpinn og eins og hann sé laus úr þessu sóttvarnamóki sem við erum öll föst í,“ segir Anna.

Anna segir að líklega náist ekki að nýta hámarksfjöldann í laugina þar sem flöskuhálsinn liggi í heitu pottunum. „Við erum aldrei að fara að ná að nýta 50% hámarksfjölda án þess að við séum að fara að stöðva fólk á leið inn upp á að það sé orðið of þröngt í potta,“ segir Anna og bætir við að það hafi einnig verið raunin í vetur þegar sömu reglur voru í gildi.

Stærsti potturinn í Vesturbæjarlaug var kominn í fulla nýtingu í morgun og Anna segir að búast megi við röðum þegar líður á daginn enda mest að gera síðdegis, eftir klukkan 16. 

mbl.is