Hafa haldið mig einhvern óþokka

Það er fallegt í Kaupmannahöfn. Mannlíf í Nýhöfninni á sólríkum …
Það er fallegt í Kaupmannahöfn. Mannlíf í Nýhöfninni á sólríkum degi í júlímánuði. Ómar Óskarsson

„Þeir hafa víst haldið mig einhvern óþokka, þeir dánumenn, sem fylgjast með ferðalögum íslenskra þegna úr landinu. Sennilega búist við að jeg myndi hlaupa frá konu og krökkum, húsræflinum og bílskrjóðnum, því þeir heimtuðu að jeg borgaði alla mína skatta til ríkis og bæjar út í hönd, áður en jeg færi af landinu.“

Þetta sagði Íslendingur nokkur, sem vann ferð fram og til baka til Kaupmannahafnar í happdrætti árið 1951, við Morgunblaðið á þeim tíma. 

„Þeir vildu ekki eiga neitt á hættu með svona kóna, sem vinna ferð fram og til baka til Kaupmannahafnar í happdrætti. Síðan varð jeg að hlaupa milli bæjarskrifstofu, og tollskrifstofunnar og þaðan á lögreglustöðina. Hjer er jeg eins og þú sjerð – og hvílík sjón,“ bætti maðurinn við.

„Jeg held, að ef jeg hefði vitað hvað beið mín, þá hefði jeg ekki tekið við vinningnum. Önnur eins hlaup hefi jeg aldrei vitað fyrir það eitt, að hafa unnið í happdrætti.“

Þetta gamla vegabréf er heldur meira notað en vegabréf okkar …
Þetta gamla vegabréf er heldur meira notað en vegabréf okkar manns í sögunni. Kristinn Magnússon

Stráheilt en ónýtt vegabréf

Fyrst var að útvega sér nokkurra króna virði í gjaldeyri, fyrir dvölinni milli ferða, því minna en viku gat karlanginn varla verið úr því farið var á annað borð. Við erfiðleikum í sambandi við það hafði hann búist og þeir létu heldur ekki standa á sér. En látum það vera.

„Þá var það vegabrjefið. Fyrir nokkrum árum fór jeg túr á togara til Englands og fjekk mjer þá vegabrjef – passa. – Það plagg var ekki gefið, frekar en annað ef mig minnir rjett. En nú fjekk jeg að vita, að það væri orðið ónýtt.“

Ekki var það vegna þess, að illa hefði verið farið með bókina, að hún var talin einskis virði. Ljósmyndin var í besta lagi, skýr og ómáð með öllu. Einn eða tveir stimplar voru á einni blaðsíðu af einum 16, sem ætlaðar eru fyrir svoleiðis. „Þessi vegabrjefsbók hefði dugað mjer þótt jeg yrði níræður, ef vel hefði verið með hana farið,“ sagði ferðalangur.

En það var ekki til neins að deila um það, bókin var ónýt – of gömul og ef okkar maður ætlaði út fyrir landsteinana, þá varð hann að kaupa nýja vegabréfsbók og leggjast undir nýjar mælingar, ákvörðun á augnalit, leit að fæðingarblettum á skrokknum eða gömlum örum – og svo náttúrlega að borga, því ekki var hægt að fá neitt fyrir hina bókina, þótt ekki sæist á henni blettur.

Nánar er hermt af hremmingum ferðalangsins í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »