Starfshópur um uppbyggingu eldgossvæðisins

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Geldingadali og búist …
Fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Geldingadali og búist er við því að sá áhugi verði áfram til staðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Settur verður á fót starfshópur til að koma með tillögur um uppbyggingu eldgossvæðisins í Geldingadölum til skemmri og lengri tíma. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti þetta fyrir ríkisstjórninni á föstudaginn, en búist er við að svæðið verði vinsæll áfangastaður bæði meðan gosið stendur yfir og eftir að því lýkur.

„Öll þessi uppbygging þarf að þola álag ferðamanna allan ársins hring og þarf að skoða hvernig tryggja megi öryggi ferðamanna og upplýsingamiðlun til þeirra auk þess sem huga þarf að aðgangsstýringu,“ er haft eftir Þórdísi í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Segir hún að þegar hafi verið gripið til bráðaaðgerða á svæðinu af hálfu Grindavíkurbæjar. Þá hafi verið úthlutað úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingarinnar.

Tekið er fram að svæðið sé í eigu einkaaðila og réttur og hagsmunir þeirra séu miklir, en á sama tíma séu hagsmunir samfélagsins miklir, bæði hvað varðar aðgang heimamanna og uppbyggingu ferðaþjónustu.

Í hópnum munu eiga sæti fulltrúar landeigendafélaganna tveggja á svæðinu, Grindavíkurbæjar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurnesjum auk Skarphéðins Berg Steinarssonar ferðamálastjóra, sem stýrir starfi hópsins.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri mun stýra starfi hópsins.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri mun stýra starfi hópsins. mbl.is/Eggert

Hópnum er ætlað að skila frumtillögum sínum til starfshóps til verndar innviðum vegna eldsumbrota á Reykjanesi, sem stýrt er af ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, eigi siðar en 30. apríl. Lokatillögur hópsins skulu liggja fyrir eigi síðar en 31. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina