Fékk 3,5 ár fyrir mikið magn stera og amfetamíns

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á þrítugsaldri var í síðustu viku dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa haft í fórum sínum mikið magn amfetamínbasa og stera.

Maðurinn viðurkenndi brot sín fyrir dómi og þóttu gögn málsins styðja þann framburð. Þetta er fyrsti dómur mannsins og er horft til þess að hann eigi ekki sakaferil að baki. Þá segir jafnframt að hann hafi lýst yfir iðrun og vilja sínum til að hverfa af þessari braut. Voru meðal annars lögð fyrir dóminn gögn um að hann væri kominn með fasta vinnu.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa haft í vörslum sínum til sölu og dreifingar 7,5 lítra af amfetamínbasa sem var með 45-57% styrkleika. Þá var hann jafnframt með talsvert magn af sterum; 940 ml af mesterolon, 510 ml af nandrolon, 1.540 ml af testosterone, 2.180 ml af trenbolon og 980 ml af sustanon. Fundust efnin í bílskúr sem maðurinn var með á leigu.

Í dóminum kemur fram að óhjákvæmilegt hafi verið að horfa til magns efnanna og hættueiginleika þeirra.

Til viðbótar við 3,5 ára dóm þarf maðurinn að greiða tæplega fjórar milljónir í málskostnað. Þá eru gerð upptæk ýmis tæki tengd vinnslu efnanna, svo sem loftdælur, tímarofar, loftsíur o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert