Mögulega nýtt gosop í Geldingadölum

Kristinn Magnússon ljósmyndari tók þessa mynd af eldgosinu í Geldingardölum …
Kristinn Magnússon ljósmyndari tók þessa mynd af eldgosinu í Geldingardölum seint í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er hægt að segja með fullri vissu að nýtt gosop hafi opnast á tólfta tímanum í gærkvöldi þegar jarðskjálfti upp á 4,1 stig reið yfir. Ef svo er þá er það vel innan þess svæðis sem hraunið er í dag, það er á því svæði þar sem eldgosið er nú þegar. Vangaveltur hafa verið um hvort opnast hafi ný gossprunga við jaðar þess gígs sem var nyrstur eftir að gossprunga sem opnaðist á öðrum degi páska lokaðist. 

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé hægt að staðfesta nýja sprungu að svo stöddu en til þess verði að fara á vettvang og rannsaka málið þar sem þetta er á hraunsvæðinu. Annað mál væri ef þetta væri á nýjum stað líkt og var þegar sprunga tvö opnaðist og hraun fór að flæða í Meradali. 

Kristinn Magnússon ljósmyndari tók þessa mynd af eldgosinu í Geldingardölum …
Kristinn Magnússon ljósmyndari tók þessa mynd af eldgosinu í Geldingardölum seint í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Klukkan 23:05 varð skjálfti af stærðinni 4,1 um 3 km norðaustur af Þorbirni. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að hann hefði fundist víða á Suðvestur-, Suður- og Vesturlandi eða allt austur á Hellu og norður í Grundarfjörð. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið og hefur verið smá skjálftavirkni á Reykjanesi í nótt en allt eru það smáskjálftar að sögn Salóme. 

Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesi síðan 15. mars eða frá því áður en gos hófst.

Suðvestlæg átt var ríkjandi í nótt og verður nú í morgunsárið. Það þýðir að gasmengun berst í átt að höfuðborgarsvæðinu. Búast má við hækkuðum gildum á brennisteinstvíoxíði (SO2) á þeim slóðum. Síðdegis er vindur orðinn sunnanstæðari og hallar sér í suðaustanátt seint í kvöld og á fimmtudag. Þá berst gasmengunin í átt að Vogum og síðar Reykjanesbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert