„Þeir geta hæglega borið veiruna áfram“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvö þeirra kórónuveirusmita sem greindust utan sóttkvíar innanlands í gær virðast ekki tengjast fyrri smitum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ljóst að veiran sé víða úti í samfélaginu og margir smitaðir séu einkennalitlir eða -lausir og geti þannig hæglega dreift veirunni án þess að vita af því. Þórólfur hefur ekki tekið ákvörðun um að herða aðgerðir. 

17 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, þar af átta utan sóttkvíar. Sex smitanna sem komu upp utan sóttkvíar tengjast fyrri smitum en einstaklingarnir voru ekki í sóttkví þar sem þeir komu ekki upp í rakningu.

Veiran víða

Eru smitin enn einangruð eða er kominn tími á hertar aðgerðir?

„Þetta er náttúrlega dreift víða. Það er alveg augljóst að veiran er víða þarna úti. Það eru margir sem eru einkennalitlir eða einkennalausir. Þeir geta hæglega borið veiruna áfram svo veiran er áfram þarna úti,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Hann kallar áfram eftir því að almenningur forðist hópamyndanir og sinni sínum persónulegu smitvörnum.

„Svo er það alltaf spurningin um það hvenær þurfi að grípa til harðari aðgerða en eru í gangi núna. Ég minni á að þessi smit sem við erum að eiga við núna hafa sennilega langflest orðið á meðan við vorum með harðari aðgerðir í gangi, 10 manna hámark og allt lokað. Svo ég held að við þurfum aðeins að horfa á það út frá þeim sjónarhóli.“

Alltaf að velta aðgerðum fyrir sér

Hvað segir það okkur, að harðari aðgerðir virki ekki?

„Það sem virkar er hvernig fólk hegðar sér, hvort einstaklingarnir passa sig. Það skiptir öllu máli. Hvaða aðgerðir við setjum á laggirnar er toppurinn ofan á það til þess að reyna að minnka hópamyndanir og skiptingu og blöndun milli hópa sem mest. Það virkar ekki ef fólk fer ekki eftir því,“ segir Þórólfur.

Hann segir ljóst að flestir fari eftir reglum en lítið þurfi til svo smit fari á kreik.

Spurður hvenær sé tímabært að grípa til hertra aðgerða segist Þórólfur alltaf vera að hugsa um það en ekki sé hægt að miða við eina ákveðna smittölu í þeim efnum. Nú er í forgangi að skoða hertar aðgerðir við landamærin í samræmi við nýsamþykkt lög sem heimila yfirvöldum að skylda ferðamenn í sóttvarnahús.

mbl.is

Bloggað um fréttina