Bóluefni Janssen fyrir alla eins fljótt og hægt er

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusetningar með bóluefni Janssen hefjast hér á landi eins fljótt og hægt er en fyrr í vikunni barst niðurstaða frá Lyfja­stofn­un Evr­ópu (EMA) þess efn­is að hægt verði að nota bólu­efni Jans­sen, sem hafði verið til skoðunar vegna mögu­legra tengsla bólu­efn­is­ins við sjald­gæfa teg­und blóðtappa.

Ísland hefur gert samn­inga um kaup á 235.000 skömmt­um af efn­inu. Ólíkt öðrum efn­um þarf ein­ung­is eina sprautu, ekki tvær, til að telj­ast full­bólu­sett­ur. Nú þegar eru 2.400 skammt­ar af bólu­efn­inu í geymslu hér á landi.

Janssen-bóluefnið frá Johnson & Johnson.
Janssen-bóluefnið frá Johnson & Johnson. AFP

„Það er mjög stór vika í næstu viku þar sem rúmlega 20 þúsund verða bólsettir á landinu. Nákvæmlega hvenær Janssen bóluefnið verður sett í notkun er ekki vitað en við munum byrja að nota það eins fljótt og hægt er,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þórólfur segir að bóluefnið verði í boði fyrir alla aldurshópa og því ekki gefið ákveðnum hópum eins og bóluefni AstraZeneca.

„Tölur um aukaverkanir eru lágar og áhættan lítil og ég tel ekki ástæðu til að fara með þetta eins og bóluefni AstraZeneca,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert