Eignarhluti ríkisins í Keldum aukinn

Bæjarhúsin við Keldur eru af elstu varðveittu gerð torfhúsa, en …
Bæjarhúsin við Keldur eru af elstu varðveittu gerð torfhúsa, en frá því um miðja 20. öld hefur bærinn verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og tilheyrir safnkosti þess. Ljósmynd/Þjóðminjasafn Íslands

Ríkissjóður hefur gengið frá kaupum sem ná yfir 130 hektara lands við Keldur og allar fornar byggingar og mannvirki næst Keldnabænum og landbúnaðarbyggingar frá síðari hluta 20. aldar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Þjóðminjasafns Íslands, en kaupin tryggja lóðarréttindi, sjónlínur og verndarsvæði í næsta nágrenni bæjarins, þ.e. menningarlandslagið í heild með búsetuminjum, húsum og rústum húsa. 

Í tilkynningu á vef Þjóðminjasafnsins segir að ávinningur minjavörslu í landinu og í raun þjóðarinnar allrar með kaupunum sé ótvíræður. „Hið einstaka menningarlandslag er komið í opinbera eigu og unnt er að tryggja varðveislu eins merkasta sögustaðar þjóðarinnar og aðgengi innlendra sem erlendra gesta að Keldum.“

Bæjarhúsin við Keldur eru af elstu varðveittu gerð torfhúsa, en frá því um miðja 20. öld hefur bærinn verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og tilheyrir safnkosti þess. 

Hefðbundinn búskapur á Keldum verður aflagður á þessu ári og á næstu misserum er stefnt að því að gera við forn hús og mannvirki sem Þjóðminjasafn Íslands var að taka í sína umsjá og bæta og byggja upp aðstöðu til móttöku ferðamanna. Síðar á þessu ári verður bílastæði vestan við bæjarþyrpinguna stækkað og þar komið fyrir þjónustuhúsi með salernum. Sú framkvæmd er hluti Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Keldnabærinn er opinn daglega frá kl. 10:00 til 17:00 frá 1. júní til 31. ágúst.

mbl.is