Krefst óháðrar rannsóknar á Init

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efling krefst þess að óháð rannsókn fari fram á rekstri fyrirtækisins Init, sem hefur haldið utan um tölvukerfi lífeyrissjóða og stéttarfélaga til margra ára. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist ekki trúa öðru en að verkalýðshreyfingin öll, sem og lífeyrissjóðir sem eiga í viðskiptum við fyrirtækið séu sama sinnis.

Fjallað var um starfsemi fyrirtækisins í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi. Í þættinum kom fram að stéttarfélög og lífeyrissjóðir hefðu um árabil greitt háar fjárhæðir fyrir rekstur kerfisins.

Af ársreikningum félagsins að dæma virðast tugir milljóna hins vegar hafa verið færðar inn í sérstakt félag, Init-rekstur, sem þó hefur alls engan rekstur og arður greiddur út úr því félagi.

Sólveig segir grunsemdir hafa vaknað fyrir nokkru síðan þegar stjórn Eflingar veitti því athygli hve mikið félagið greiddi Init fyrir aðgang að tölvukerfinu, sem notað er til að halda utan um iðgjaldagreiðslur.

Um 70-80 milljónir króna hefur Efling greitt á ári fyrir þessa þjónustu. Líkt og fram kom í Kveik í gær hefði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, átt í samtölum við stjórnendur Init, en ekkert hafi komið út úr því.

Sólveig segir að allir þeir sem hafa átt í viðskiptasamböndum við Init þyrftu helst að koma að slíkri rannsókn, en það eru fjölmörg stéttarfélög og flestir lífeyrissjóðir landsins. Spurð hvort tilefni sé til lögreglurannsóknar segist hún ekki geta sagt til um það, en bendir þó á að alvarlegar ábendingar hafi komið fram í áreiðanleikakönnun KPMG sem gerð var í tengslum við fyrirhugaða sölu félagsins. Þar komu meðal annars fram efasemdir um að gjörningarnir standist skattalög.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert