Karlmenn á öllum aldri geta fengið AstraZeneca

Sigríður Dóra Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er farin að boða karlmenn sem eru yngri en 55 ára í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19. Áður hafði verið miðað við að einungis fólk sem væri eldra en 55 ára fengi bóluefnið. 

„Karlmenn á öllum aldri mega fá bóluefni AstraZeneca,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is. 

Konur verða aftur á móti einungis boðaðar í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca séu þær 55 ára eða eldri eða hafi þegar fengið fyrstu sprautuna af bóluefninu. 

„Við sendum í gærkvöldi út boð um endurbólusetningu með AstraZeneca, til dæmis til fólks sem starfar á hjúkrunarheimilum. Í þeim hópi eru konur yngri en 55 ára en þetta er valkvætt fyrir þennan hóp. Margar vilja koma, en ef þær vilja ekki koma þá fá þær annað bóluefni seinna,“ segir Sigríður Dóra. 

Yngri konur mega fá efnið en verða ekki boðaðar

Þá mega konur sem eru yngri en 55 ára almennt fá bóluefni AstraZeneca, vilji þær það, en þær verða ekki boðaðar í bólusetningu með efninu. 

„Það verða opnir dagar auglýstir en við erum ekki komin svo langt með það.“

10.000 manns verða bólusett með bóluefni AstraZeneca í Laugardalshöll á fimmtudag. Áður var ekki gert ráð fyrir skömmtunum í bólusetningadagskránni vegna skorts á mannskap til þess að sinna bólusetningunni. Úr því hefur nú verið bætt. 

Bólusetja 40.000 manns á landsvísu í vikunni

Alls á að bólusetja um 40.000 manns á landsvísu í vikunni, að því er fram kemur á vef embættis landlæknis.

„Samtals 14.000 fá Pfizer-bóluefnið, bæði fyrri og seinni bólusetningu. Einnig fara samtals 6.500 skammtar af Janssen-bóluefninu í dreifingu, um 15.000 manns fá bóluefni Astra Zeneca og á höfuðborgarsvæðinu verða 4.000 einstaklingar bólusettir með Moderna-bóluefninu.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert