Engin þróun á fimmtán árum

Hér sést hversu umfangsmikil eyðing var af völdum gróðureldsins í …
Hér sést hversu umfangsmikil eyðing var af völdum gróðureldsins í Heiðmörk í fyrradag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brýn þörf er á að bæta búnað slökkviliða til að takast á við gróðurelda. Að sama skapi þyrfti að efla fræðslu og endurmenntun slökkviliðsmanna svo þeir séu sem best undir það búnir að takast á við stóra gróðurelda. Þetta er mat Bjarna K. Þorsteinssonar, slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð, í kjölfar mikils gróðurelds sem kom upp í Heiðmörk á þriðjudag. Talið er að eldurinn hafi farið yfir 56 hektara svæði.

„Það hefur engin þróun orðið frá árinu 2006 í kjölfar eldanna á Mýrum, hvorki í tækjabúnaði né í fræðslu. Það hefur verið lítill áhugi hjá hinu opinbera á að skoða þessi mál,“ segir hann.

Greint var frá því í fréttum að við slökkvistarf í Heiðmörk flaug þyrla Landhelgisgæslunnar 17 ferðir og sótti vatn úr nærliggjandi vötnum til að dreifa yfir eldinn. Allt þar til búnaður þyrlunnar bilaði. Er þar um að ræða svokallaða slökkvifötu.

„Þessi búnaður er orðinn 15 ára gamall og tímabært að endurnýja hann. Þá þyrfti að skoða þessi mál í aðeins víðara samhengi og eiga alla vega tvær slökkvifötur ef önnur bilar eins og þarna gerðist,“ segir Bjarni.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, tekur undir þetta og segir að slökkviliðsstjórar hafi lengi reynt að vekja athygli á þessari stöðu mála. „Ef það væru til fleiri fötur væri hægt að kalla til fleiri aðila með þyrlur þegar mikið liggur við. Það vantar hins vegar að einhver opinber aðili haldi utan um búnað sem þarf til slíkra starfa. Það er ekkert eitt sveitarfélag sem getur átt nokkra svona poka og haldið úti þyrlu.“

Hér má sjá kort af Heiðmörk og áætluðu umfangi svæðisins …
Hér má sjá kort af Heiðmörk og áætluðu umfangi svæðisins sem brann. Kort/Kristinn Garðarsson

Róttækra aðgerða þörf

Þeir segja báðir að mikil hætta sé á gróðureldum næstu daga enda sjái ekki fyrir endann á miklum þurrkum. Mikilvægt sé að fólk fari varlega. „Annars er þetta orðið þannig í dag, alla vega hér á Vesturlandi og reyndar víðar, að veðurfar hefur breyst og skepnubeit er lítil. Fyrir vikið er meiri sina og þar með meiri hætta á eldum. Ég tel að tímabært sé að taka gróðurelda inn í lög um almannavarnir,“ segir Bjarni og vísar til hættu í þröngum sumarhúsahverfum á borð við Skorradal, Bláskógabyggð, Húsafell og víðar. „Það verður að gera eitthvað róttækt. Hið opinbera hvetur til skógræktar en það þarf líka að huga að umferðarleiðum fyrir slökkvilið og leiðum fyrir fólk til að komast í burtu ef eldur kemur upp, auk vatnsöflunar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »