Skrifa undir stóran samning við Pfizer

AFP

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, greinir frá því á Twitter að framkvæmdastjórnin hafi skrifað undir samkomulag við BioNTech-Pfizer um kaup á 900 milljónum skammta af bóluefni til viðbótar við það sem áður var búið að semja um kaup á. Jafnframt hefur verið gengið frá samkomulagi um kauprétt á öðrum 900 milljónum skammta til viðbótar. Alls er því um 1,8 milljarða skammta af bóluefni að ræða sem verða afhentir á árunum 2021 til 2023. Hún segir að fleiri samningar séu í farvatninu við aðra bóluefnaframleiðendur. 

Ísland er hluti af bóluefnasamstarfi ESB þannig að þetta hefur einnig áhrif hér. Samningur Íslands við Pfizer var undirritaður 9. desember 2020 og viðbótarsamningur 30. desember 2020, 8. mars og 12. apríl 2021. Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hélt matsfund vegna Pfizer 21. desember, framkvæmdastjórn ESB veitti bóluefninu skilyrt markaðsleyfi í kjölfarið auk þess sem Lyfjastofnun hefur veitt bóluefninu skilyrt markaðsleyfi á Íslandi. Ísland fær um 490.000 skammta sem duga fyrir um 245.000 einstaklinga. Búist er við um 35.700 skömmtum á þriðja ársfjórðungi og 44.600 skömmtum á fjórða ársfjórðungi.

Von der Leyen er stödd á ráðstefnu leiðtoga ESB í Porto í Portúgal. Þar eru bólusetningar við Covid-19 meðal annars til umræðu. Þar á meðal bólusetningar barna og hvernig taka eigi á stökkbreyttum afbrigðum veirunnar. 

mbl.is