Bæjarfulltrúi vill 3. sæti í Kraganum

Karen Elísabet Halldórsdóttir.
Karen Elísabet Halldórsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, sækist eftir þriðja sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar í haust.

Auk setu í bæjarstjórn Kópavogs er Karen Elísabet skrifstofustjóri Raftækjasölunnar ehf., hún situr í stjórn Strætó og er í ráðgjafanefnd jöfnunarsjóðs Sambands íslenskra sveitafélaga. Karen er menntuð í sálfræði  og mannauðsstjórnun.

„Ég legg höfuðáherslu á að við náum að vinna á því atvinnuleysi sem Covid-19 hefur skapað okkur. Til þess að svo sé hægt þarf að huga að rekstrarumhverfi fyrirtækja og sér í lagi lítilla og meðalstórra eininga. Mikilvægt er að þau starfi í fyrirsjáanlegu umhverfi sem einkennist af lágum sköttum og álögum. Án öflugs atvinnulífs er enginn grundvöllur fyrir sterku heilbrigðis- og velferðarkerfi.

Ég tel það mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn taki að sér forsjá heilbrigðisráðuneytisins með áherslu á að létta á biðlistum og fjölga aðgerðum sem hægt er að sinna hérlendis. Erlent vinnuafl er Íslandi dýrmætt, og huga þarf að því hvernig aðlögun nýrra Íslendinga er best fyrir komið. Við eigum að taka vel á móti fólki, aðstoða það við aðlögun og atvinnuþátttöku en um leið gera hælisleitendaferlið skilvirkara,“ segir Karen Elísabet í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert