„Frá Búrgundí í Bústaðahverfið“

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að hið opinbera hætti …
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að hið opinbera hætti einokun áfengisverslunar á netinu. Ljósmynd/Samsett

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að löngu tímabært væri að færa áfengisverslun á einkamarkaði „heim í hérað“. Átti hún þá við að leyfa verði innlendum aðilum að kaupa og selja áfengi á netinu, rétt eins og erlendum aðilum er leyft að gera hér á landi. 

„Með aukinni netverslun undanfarinna ára hefur einokun Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til að mynda verið rofin að því leyti að Íslendingar geta núna með einföldum hætti pantað áfengi frá öðrum smásölum en ÁTVR, en þó aðeins frá erlendum smásölum handan hafsins með tilheyrandi óhagræði fyrir viðskiptavini hér á landi vegna tíma og kostnaðar sem fylgir þessum flutningi yfir hafið,“ sagði Sigríður í umræðum um störf þingsins í dag.

„Undanfarna daga hefur verið sagt frá því í fréttum að franskt fyrirtæki, Santewines SAS, bjóði Íslendingum nú að kaupa vín á vef sínum og fá það afhent samdægurs eða næsta virka dag. Samkvæmt upplýsingum á vef fyrirtækisins er birgðahald fyrirtækisins hér á landi sem útskýrir stuttan afgreiðslutíma. Það er rétt að halda því til haga að fyrirtækið skilar, að því að mér skilst, öllum áfengissköttum til ríkissjóðs og áfengisverslunarinnar og gætir einnig að aldri viðskiptavina.“

Sigríður spurði svo undir lok ræðu sinnar hvers vegna verið væri að halda í þessa ríkiseinokun. Hún sagðist ekki trúa því að drykkjuvenjur Íslendinga breyttust ef heimilisfang söluaðila áfengis væri skráð hér á landi eða í Búrgúndí-héraði í Frakklandi, sem þekkt er fyrir vínframleiðslu. 

Virðulegur forseti. Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað, frá Búrgundí í Bústaðahverfið, svo dæmi sé tekið. Kominn tími til fyrir löngu.

mbl.is

Bloggað um fréttina