Sóttu hjólabát á reki

Frá gróðureldunum á Laugarnestanga í gærkvöldi.
Frá gróðureldunum á Laugarnestanga í gærkvöldi. Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út ásamt björgunarsveitarfólki undir miðnætti vegna hjólabáts á reki á Elliðavatni. Björgunarsveitarfólk leitaði af sér grun um að enginn hafi verið á bátnum og slökkviliðsmenn sóttu bátinn og komu honum í land.

Annars var mikið álag á slökkviliðið vegna gróðurelda á höfuðborgarsvæðinu í gær. Hættustig er í gildi á höfuðborgarsvæðinu vegna þurrka og aukinna líkna á gróðureldum og því er öll meðferð elds bönnuð á gróðursælum stöðum.

Þrátt fyrir þessi tilmæli voru tvær stöðvar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi að slökkva gróðureld í Laugarnesi en fyrr um daginn var megnið af mannskapnum við Stórhöfða ofan Hvaleyrarvatns að slökkva gróðureld að því er segir á facebooksíðu slökkviliðsins. Að sögn varðstjóra var slökkviliðið síðan kallað út að nýju vegna glóðar í sinunni við Hvaleyrarvatn en vegfarendur höfðu náð að slökkva það að mestu áður en slökkviliðið kom á vettvang að nýju.

Slökkviliðið sinnti 121 sjúkraflutningi síðasta sólarhringinn og af þeim voru 25 forgangsverkefni og tvö verkefni tengd Covid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert