Tveir greinst með indverska afbrigðið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir hafa greinst á landamærunum með indverska afbrigði kórónuveirunnar. Þeir eru báðir í sóttvarnahúsi. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi.

Tveir liggja á Landspítalanum, þar af einn á gjörgæslu en hann er ekki í öndunarvél.

Almannavarnarstig vegna Covid-19 hefur verið fært frá neyðarstigi niður á hættustig. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á fundinum.

Síðustu viku hafa 26 greinst með kórónuveiruna innanlands, þar af 7 utan sóttkvíar. Síðastliðna viku greindust 5 virk smit á landamærunum, sagði Þórólfur.

Hann sagði smitum á landamærunum hafa fækkað nokkuð að undanförnu og nefndi að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hefðu væntanlega dregið úr smitunum.

Þórólfur bætti við að við sjáum fram á mikla aukningu ferðamanna á næstu vikum. Í því felst mikil áskorun. Breyta þarf skimun á landamærunum út af þessu og einnig þarf að tryggja meira rými í sóttvarnahúsum. Þessi áskorun mun standa yfir í júní og júlí. Þá er útlit fyrir að almenn þátttaka í bólusetningum sé orðin það góð að ekki þarf að hafa eins miklar áhyggjur af faraldrinum, sagði Þórólfur og talaði um um þátttöku í kringum 60 til 70%.

Fari varlega í kringum gróður

Víðir hvatti almenning til að fara varlega í kringum gróður í ljósi hættustigs almannavarna vegna gróðurelda. Hann sagði um nýjan veruleika að ræða og bað alla um að taka þátt í að verjast þessari ógn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert