B.1.617 komið til þriggja norrænna ríkja

Talið er að það séu margfalt fleiri látnir af völdum …
Talið er að það séu margfalt fleiri látnir af völdum Covid-19 á Indlandi en opinberar tölur segja til um. AFP

Yfir 250 þúsund íbúar Indlands hafa látist af völdum kórónuveirunnar og síðasta sólarhringinn létust fleiri en nokkru sinni áður, 4.205 einstaklingar. Margir sérfræðingar telja að margfalt fleiri séu látnir þar í landi vegna Covid-19 enda heilbrigðiskerfið á heljarþröm.

„Jafnvel þrisvar eða fjórum sinnum fleiri er vanmat,“ segir Anant Bhan, sjálfstætt starfandi ráðgjafi á heilbrigðissviði og rannsakandi, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar, B.1.617, sem fyrst greindist á Indlandi í október fer nú eins og eldur í sinu þar í landi og hefur dreifst til 44 ríkja svo vitað sé. Þar á meðal til á annan tug ríkja í Evrópu, svo sem Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, auk Þýskalands, Frakklands og Hollands. Mörg ríki hafa brugðið á það ráð að loka landamærum fyrir þeim sem koma frá Indlandi. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru smitin af þessu stökkbreytta afbrigði flest í Bretlandi fyrir utan Indland.

Fyrr í vikunni var B.1.617 sett á gátlista hjá WHO og deilir þeim vafasama heiðri með afbrigðum sem fyrst greindust í Bretlandi (það afbrigði sem er ríkjandi á Íslandi í dag), Brasilíu og Suður-Afríku. 

B.1.617 afbrigðið hefur nú greinst í að minnsta kosti 44 …
B.1.617 afbrigðið hefur nú greinst í að minnsta kosti 44 löndum. AFP

Bandaríkin eru það land þar sem flestir hafa látist af völdum Covid-19 eða yfir hálf milljón samkvæmt opinberum tölum. Mikil áhersla hefur verið lögð á bólusetningar undir stjórn ríkisstjórnar Joes Bidens og hefur staðan gjörbreyst þar í landi undanfarna mánuði.

Að sögn Bidens hefur tæpur helmingur allra þjóðarleiðtoga heims leitað til hans og Bandaríkjanna eftir aðstoð þegar kemur að bóluefnum.  

Öll ríki heims leita nú til okkar um að verða sér úti um bóluefni vegna skorts á bóluefnum, sagði Biden á rafrænum fundi með ríkisstjórnum Bandaríkjanna í gær. Hann segir að 40% af þjóðarleiðtogum heims hafi þegar hringt og óskað eftir aðstoð Bandaríkjanna. „Við munum reyna það.“

Biden hét því í síðasta mánuði að afhenda 60 milljónir skammta af bóluefni AstraZeneca og er fastlega gert ráð fyrir að þeir fari til Indlands. 

Fleiri hætta að nota AstraZeneca

Fleiri lönd og ríki hafa bæst í hóp þeirra sem …
Fleiri lönd og ríki hafa bæst í hóp þeirra sem eru hætt að nota AstraZeneca. AFP

Bóluefni AstraZeneca er notað víða um heim en spurningar hafa kviknað um mögulegar aukaverkanir. Í gær ákváðu nokkur ríki Brasilíu, þar á meðal Sao Paulo og Rio de Janeiro, að hætta að nota AstraZeneca-bóluefnið við bólusetningar þungaðra kvenna. Er það gert að ráðleggingu sóttvarnalæknis eftir dauðsfall.

Slóvakía ákvað einnig í gær að hætta að nota AstraZeneca og vísaði landlæknir þar í nýjar upplýsingar um hættuna á blóðtöppum. Hið sama gerði fjölmennasta fylki Kanada, Ontario, og vísaði í hættuna á blóðtöppum. 

Á Íslandi hafa konur fæddar 1966 og eldri fengið bólusetningu með AstraZeneca og eins karlar á ýmsum aldri. 

Á sama tíma hafa yfirvöld í eyríkinu Nauru í Kyrrahafi greint frá því að það er fyrsta landið þar sem allir fullorðnir eru bólusettir, en þeir eru innan við átta þúsund talsins. Allir voru bólusettir með AstraZeneca.

Nauru fékk AstraZeneca-bóluefnið í gegnum Covax-bólusetningarsamstarfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert