Gefa út leiðbeiningar ef upp koma blóðtappar

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Már Kristjánsson yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans hefur birt leiðbeiningar á vef Landspítalans til handa heilbrigðisstarfsmönnum í tilfelli blóðtappa sem komið geta fram eftir bólusetningu með efni AstraZeneca og Janssen. 

Már segir í samtali við mbl.is að slíkir blóðtappar hafi ekki komið upp hér á landi, en að í ljósi tilfella annarsstaðar og umræðu um slík tilfelli voru leiðbeiningarnar gefnar út. Ástandið sem um ræðir er kallað ýmist VITT, sem stendur fyrir vaccine induced thrombocytopenia and thrombosis syndrome, TTS (thrombocytopenic thrombosis syndrome) eða VIPIT (vaccine induced prothrombotic immune thrombocytopenia). 

„Þetta eru sérstakar tegundir af blóðtöppum sem fólk fær sem tengjast blóðflögufæð og þegar það gerist þarf að ganga hægt inn um gleðinnar dyr og nota bara ákveðnar tegundir af blóðsegaleysandi efnum sem þarna koma fram,“ segir Már um tilfellin. 

Slík tilfelli eru sjaldgæf en hafa komið upp í kjölfar bólusetningar með bóluefnum AstraZeneca og Janssen víða um heim og virðast vera algengari á meðal yngri kvenna. 

„Það hafa komið upp blóðtappar hér bara eins og gerist, en það er ekki hluti af þessu. Það hafa komið upp blóðtappar eftir öll bóluefnin, en ég get fullyrt að við höfum ekki fengið svona. Þetta er menntunarplagg en ekki viðbragðsplagg,“ segir Már. 

„Við erum ekki að gera þetta af tilefni heldur af því að þetta er þekkt aukaverkun erlendis. Það er verið að bólusetja fólk með þessu hér á Íslandi og þá viljum við að læknum sé kunnugt um grundvallaratriðin við greiningu og hvað megi og hvað megi ekki. Þetta er í rauninni forvirk ráðstöfunum,“ segir Már um leiðbeiningarnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert