Gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda

Líklegt er að gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda.
Líklegt er að gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólíklegt þykir að gosið í Geldingadölum verði langvinnt eða hraunið rúmmálsmikið. Aftur á móti má ætla að gosið marki jafnframt upphaf nýrra Reykjaneselda. 

Kemur þetta fram í svari Sigurðar Steinþórssonar, prófessors emeritusar á Vísindavefnum, við spurningunni „Er líklegt að gosið í Geldingadölum standi lengi?“.

Marki gosið upphaf nýrra Reykjaneselda mun gosvirknin einkennast af eldum sem standa í nokkra áratugi hver.

Síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga stóðu yfir fyrir um 3.000-3.500 árum, fyrir 1.900-2.400 árum og svo síðast á árunum 800-1240 eftir kristsburð.

Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár. Á þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma, að því er athuganir Magnúsar Á. Sig­ur­geirs­sonar, jarðfræðing­s hjá ÍSOR, benda til.

Reykjanesskagi er hluti af íslenska rekbeltinu.
Reykjanesskagi er hluti af íslenska rekbeltinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæg kvikumyndun 

„Ef gengið væri út frá því að „framleiðsluhraði“ þeirra gossprungna hefði verið svipaður og nýju sprungunnar, mætti hugsa sér að meta goslengdina út frá rúmmáli þessara hrauna og væntanlega goslengd í Geldingadölum,“ skrifar Sigurður. 

Reykjanesskagi er hluti af íslenska rekbeltinu en vegna stefnu flekamótanna nálægt rekstefnunni er gliðnun mjög hæg miðað við Austurgosbeltið þar sem hún er 2 sentimetrar á ári – slík flekamót eru nefnd „lek sniðgengi“.

Fjarri því að ná til höfuðborgarsvæðisins

„Undir Reykjanesskaga hlýtur kvikumyndun að vera hæg af tveimur ástæðum: gliðnun er hæg, og möttulefnið „skert“, — auðbræddasti hlutinn er þegar bráðnaður og horfinn úr því,“ skrifar hann. Þetta sjáist meðal annars í hækkandi styrk magnesíns en þó skýrast í þverrandi styrk utangarðsefna.

Sigurður gerir ráð fyrir að gossprungur í væntanlegum Reykjanesseldum nái stutt frá rekbeltinu eins og í fyrri eldum. Í Krísuvíkursveimnum eru gossprungur því fjarri því að ná til höfuðborgarsvæðisins. Lesa má nánari útlistun á þessu á Vísindavefnum

mbl.is