Blinken áhugasamur um Carbfix

Bjarni Bjarnason forstjóri OR tekur á móti Blinken við Hellisheiðarvirkjun.
Bjarni Bjarnason forstjóri OR tekur á móti Blinken við Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Hellisheiðarvirkjun nú síðdegis. Blinken reyndist, að sögn viðstaddra, mjög áhugasamur um Carbfix-tæknina.

Segir í tilkynningu frá Orkuveitunni að Blinken hafi sagt það mikilvægt að á þessum tímum væri til tækni líkt og Carbfix-tæknin og að það gæfi okkur von. Þá mun Blinken hafa spurt hvað stæði í vegi fyrir því að tækninni yrði beitt á stærri skala og hversu útbreitt basalt væri í heiminum. Hann velti því einnig fyrir sér hvort niðurdæling með þessum hætti hefði í för með sér einhverjar aukaverkanir.

Bjarni Bjarnason forstjóri OR tók á móti Blinken og kynnti honum bæði jarðhitanýtinguna og Carbfix-tæknina. Þeir ræddu saman um jarðhitann en Blinken sagðist fróður í slíkum efnum þar sem hann nýtir hita jarðar, með svokallaðri varmadælutækni, til að kynda húsið sitt.

Þá sýndi Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, Blinken og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, sem var einnig viðstaddur heimsóknina, niðurdælingasvæði Carbfix fyrir koldíoxíð og þeir fengu að líta inn í eitt af borholukúluhúsunum á svæðinu.

Halla Hrund Logadóttir verðandi orkumálastjóri, Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdarstýra …
Halla Hrund Logadóttir verðandi orkumálastjóri, Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdarstýra Carbfix, Bjarni Bjarnason forstjóri OR, Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Hildigunnur Thorsteinsson stjórnarformaður ON. Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson
mbl.is