Segir endursendingu hælisleitenda standast lög

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra. Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir endursendingu hælisleitenda til Grikklands standast lög. Bendir hún á að aðeins séu sendir hælisleitendur sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.

„Við erum framarlega þegar það kemur að því að láta kerfið virka vel, við tókum á móti fleirum en nágrannalöndin okkar í fyrra hlutfallslega og fleiri umsóknir koma hér líka hlutfallslega. Við höfum líka náð málsmeðferðartíma niður og það er ekki mál á borði Útlendingastofnunnar eldra en 110 daga gamalt," sagði Áslaug spurð um mál hælisleitenda í óundirbúnum fyrirspurnum þingsins í dag.

Olga Margrét Cilia, varaþingmaður Pírata, var ekki sammála ráðherra og sagði meðal annars að það breytti engu þótt Ísland væri framar en nágrannalönd. Ekkert hindri Ísland frá því að verða fremst í flokki á alþjóðavettvangi hvað varði mannúðlega meðferð á hælisleitendum.

Olga vitnaði einnig í yfirlýsingu Rauða krossins þar sem segir að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikkland séu ekki forsvaranleg við núverandi aðstæður. 

„Það breytir voðalega litlu að þeir séu komnir með alþjóðlega vernd í Grikklandi, þegar ég er að tala um að kerfið í Grikklandi sé sprungið er það bæði útaf landfræðilegu stöðu sinni við gríðarlegan mikinn fjölda flóttafólks auk þess að vera að sinna fólki sem hefur fengið alþjóðlega vernd þar í landi," sagði Olga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert