Eldgosið gæti þróast í dyngjugos

Eldgosið í Geldingadölum á sunnudagskvöld.
Eldgosið í Geldingadölum á sunnudagskvöld. mbl.is/Einar Falur

„Það sem við erum að sjá núna eru tiltölulega góð teikn um það að þetta geti þróast yfir í dyngjugos,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, um þróunina í Geldingadal.

Segir í færslu á facebooksíðu Þorvaldar og á facebooksíðu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands að eldgosið í Geldingadölum hafi unnið ötullega að því undanfarnar vikur að mynda hrauntjörn við gíg 5a og á pallinum ofan við Nafnlausadal. Þar segir jafnframt að myndun slíkrar hrauntjarnar sé grunnskilyrðið fyrir myndun hraunskjaldar eða dyngju.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur segir í samtali við mbl.is að tjörnin sem er að myndast fyrir ofan Nafnlausadal dæli kviku í nærri því allar áttir og viðhaldi því streymi í bæði Meradali, Geldingadali og eins í gegnum Nafnlausadal og niður í Nátthaga.

Aðspurður segir Þorvaldur það ekki óvanalegt að slíkar tjarnir myndist. Það sé tiltölulega algengt að slíkar tjarnir myndist sem virka þá sem eins konar miðlunarlón. Þorvaldur bendir á að á sama tíma minnki hitatapið í gosinu.

„Ég býst nú við því að þetta fari þannig að lónið byggi sig upp og hækki og þannig myndi það smátt og smátt kæfa gíginn og þá minnkar hitatapið jafnvel ennþá meira,“ segir Þorvaldur og bendir á að þá fari kvikustrókavirknin að hætta en hún veldur töluvert miklu hitatapi.

Hraunfoss í Nátthaga.
Hraunfoss í Nátthaga. mbl.is/Einar Falur

Þorvaldur segir að ef um dyngjugos sé að ræða sé komin tjörn sem virki eins og eins konar miðlunarlón sem heldur kvikunni sem kemur upp úr gígnum heitri þangað til hún kemur upp úr flutningskerfinu. Þetta þýðir þá að það verður auðveldara fyrir hraunið að flæða frá upptökum og byggja smátt og smátt upp hraunskjöld.

Gæti bent til þess að gosið haldi áfram

„Ef þetta verður þróunin eru komnar miklu betri horfur á að gosið haldi áfram. Því minni hita sem kvikan tapar, því meiri líkur eru á að það sé auðvelt fyrir kvikuna að koma upp og halda þessu öllu saman opnu og þar af leiðandi bara áframhaldandi gosi og hraunflæði,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur bendir jafnframt á að þróunin í Geldingadölum hafi verið athyglisverð. Bæði vegna þess að tjörnin heldur áfram að stækka og eins vegna þess að flutningurinn í Nafnlausadal hefur verið í lokuðum rásum.

„Smátt og smátt virðist gosið vera að einangra bæði flutningskerfið og allt saman betur og það er bara þróun í rétta átt ef við viljum fá gos sem býr til hraunskjöld,“ segir Þorvaldur.

Bendir myndun hraunskjaldar til þess að gosið muni vara lengi?

„Það skemmir ekkert fyrir. Við skulum bara segja það þannig,“ segir Þorvaldur að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert