„Skæruliði“ Samherja er ræðismaður Kýpur á Íslandi

Arna Bryndís Baldvins McClure.
Arna Bryndís Baldvins McClure. Ljósmynd/Samherji

Arna Bryndís Baldvins McClure lögmaður og starfsmaður Samherja er heiðursræðismaður Kýpur á Íslandi. Hún tilheyrir hópi sjálfskipaðra skæruliða Samherja, sem fjallað hefur verið um á Stundinni og Kjarnanum.

Á þetta bendir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á facebooksíðu sinni. Þar segir hann einnig að ámælisvert sé að svo sé, á meðan ákveðnir stjórnmálamenn segjast vera að vinna í almannaþágu en ekki í þágu eiginhagsmuna. 

Í samtali við mbl.is segir Björn Leví um framferði sjálfskipaðra skæruliða: „Svona er þetta.“

Skæruliði fyrirtækis með grunsamlega starfsemi á Kýpur er ræðismaður Kýpur á Íslandi

Arna Bryndís er ein sjálfskipaðra „skæruliða“ Samherja sem Stundin og Kjarninn hafa fjallað um síðastliðna daga. Í umfjöllun þeirra kemur fram að Arna, ásamt öðrum tengdum Samherja, hafi lagt á ráðin um hvernig mætti láta Samherja líta sem best út gagnvart almenningi í fjölmiðlum. Gögn, smáskilaboð og tölupóstar „skæruliðanna“, sem Stundin og Kjarninn hafa birt sýna þetta.

Björn Leví segir við mbl.is að „maður hljóti að spyrja sig“ hvernig áhrif þetta hafi á milliríkjasamskipti Kýpur og Íslands. 

Upplýsingar um ræðismann Kýpur á Íslandi.
Upplýsingar um ræðismann Kýpur á Íslandi. Skjáskot/Vefur utanríkisráðuneytisins

„Það er náttúrulega búa að rekja milligöngu Samherjafélaganna í gegnum skúffufélög á Kýpur. Og þessi heiðursræðismaður er náttúrulega tengdur við Samherja og þá væntanlega starfsemina á Kýpur. Maður veltir þá fyrir sér þessum milliríkjasamskiptum, hvaða áhrif þetta hefur á þau,“ segir Björn Leví.

„Sjöundi liðurinn í aðgerðaráætlun stjórnvalda vegna Samherjamálsins hét Aðgerðir erlendis. Þá veltir maður fyrir sér þegar maður sér svona mál koma upp í milliríkjaviðskiptum [málefni Samherja], hvað Kýpur vill gera með að viðhalda svona einstaklingi sem heiðursræðismanni á Íslandi. Maður spyr sig einnig hvaða hjálp ríki geta þá veitt hverju öðru, um til dæmis veitingu gagna og fleira, sem gætu gagnast við að varpa ljósi á eitthvað sem kannski fer miður.“

Sannanir fyrir því sem var nú þegar vitað

Björn Leví segir að nýjustu vendingar fjölmiðlaumfjöllunar um Samherja, umfjöllun um sjálfskipaða skæruliða fyrirtækisins, sanni það sem áður var vitað. 

„Þetta er svo upplýsandi um allt sem maður vissi að væri í gangi, segir Björn spurður um hvað skæruliðahernaður Samherja þýði fyrir lýðræðishefð og umhverfi fjölmiðla á Íslandi. 

„En að sjá þetta svona skýrt og skilmerkilega á prenti, setur það í annað samhengi. Þá eru þetta ekki bara gróusögur og sögusagnir lengur, þá er þetta orðið bara svart á hvítu. Svona er þetta og hvað er hægt að gera við því. Það er bara risastór spurning sem nú þarf að svara.“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beindi spjótum sínum að forsætisráðherra

Björn Leví gerði Samherja að umfjöllunarefni sínu í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar vitnaði hann í orð forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um að ekki ætti að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðisleg álitamál.

Vandinn er kerfislægur og birtist okkur reglulega í einstökum siðferðislegum álitaefnum eins og Samherjamálinu, Landsréttarmálinu, uppreist æru, í Ásmundarsal, í ráðningu ráðuneytisstjóra, á Klausturbar, í Glitnisskjölunum, Panama-skjölunum og í fullt af öðrum einstökum málum,“ sagði Björn Leví.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Því næst spurði hann Katrínu hvað ætti þá eiginlega að gera í þessum einstöku álitamálum sem einmitt væru birtingarmynd þess vanda sem hún sjálf benti á. 

Við því sagði Katrín í næstu ræðu:

„Á meðan við spólum í sama farinu með því að ræða alltaf bara einstök mál þá komumst við ekkert áfram, því að við þurfum kerfisbreytingar til að ná raunverulegum árangri. Þess vegna setti ég niður hóp í upphafi þessa kjörtímabils til að kanna heildstætt hvaða þættir hefðu áhrif á það traust sem almenningur ber til kjörinna fulltrúa og handhafa framkvæmdarvalds í landinu. Það er flókið viðfangsefni því að þetta er ekki vinsældakeppni, heldur snýst þetta um traust innviðanna og traust undirstaðnanna í samfélagi okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert