Sandfok útskýrir mistur yfir höfuðborginni

Mistur yfir höfuðborgarsvæðinu í dag.
Mistur yfir höfuðborgarsvæðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mistur hefur verið yfir höfuðborgarsvæðinu í dag og hafa loftgæði mælst óholl á svæðinu. Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir sandi af Suðurlandi um að kenna. 

„Þetta er ryk frá söndunum í kringum Markarfljót. Það hefur verið nokkuð stíf suðaustanátt í dag og í gær, svo er mjög þurrt svo sandurinn er þurrari, þess vegna er þetta í meira lagi en við erum vön,“ segir Eiríkur. 

Rykmengunin hefur haft áhrif á loftgæði. 

„Þetta kemur inn sem svifryk á mælana hjá Umhverfisstofnum á loftgæðum, þetta er eitthvað grófara en svifryk sem kemur frá nagladekkjum en þetta hefur náttúrulega áhrif, enda merkist þetta rautt,“ segir Eiríkur. 

Von er á úrkomu á Suður- og Suðvesturlandi annað kvöld en von er á því að rykmengun verði áfram þar til tekur að rigna. 

„Það er mjög líklegt að þetta verði áfram á morgun en síðan er útlit fyrir að það blotni eitthvað annað kvöld og aðfararnótt laugardags svo þá dregur að öllum líkindum úr þessu. Blautur sandur fýkur náttúrulega ekki vel,“ segir Eiríkur. 

Hann segir rykfok af Suðurlandi oft berast yfir höfuðborgarsvæðið á sumrin, en vegna þurrkatíðar undanfarnar vikur er fokið í meira mæli en vanalega. 

„Þetta kemur alltaf við og við á sumrin, en þetta er sjálfsagt í ögn meira mæli en er hefðbundið,“ segir Eiríkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka