„Þessi árangur kom mér talsvert á óvart“

Hildur Sverrisdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi árangur kom mér talsvert á óvart en er gleðilegur auðvitað,“ segir Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra, og nú frambjóðandi til Alþingis.

Hildur hafnaði í fjórða sæti prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík sem fram fór um helgina og hafði sóst eftir þriðja til fjórða sæti.

Hildur segist ekki gera sér almennilega grein fyrir hvað féll með henni í prófkjörinu. „Ég var með tiltölulega umfangslitla baráttu heima hjá mér með nokkrum nánum mér. En ég reyndi að vera eins skýr og ég gat með hvað mér finnst og hver ég er. Ég er þakklát að fá það veganesti inn á þing að ég hafi verið skýr með það og hlotið umboð á grundvelli þess,“ segir Hildur.

Hún tók einnig þátt í prófkjöri árið 2016 og hafnaði þá í sjöunda sæti. Hún tók sæti Ólafar Nordal heitinnar á Alþingi þegar hún féll frá. „Það var auðvitað við mjög sorglegar aðstæður sem það þingsæti kom til. Sú þingseta var svo styttri en nokkurn grunaði þegar sú ríkisstjórn sprakk vegna málsins sem kennt er við uppreist æru. Þá rétt missti flokkurinn þriðja þingsæti sitt í Reykjavíkurkjördæmi suður og þar með ég,“ segir Hildur.

Líklegast er að Hildur muni skipa annað sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. „Annað sæti í öðru hvoru kjördæminu ætti að vera alveg öruggt þingsæti, já,“ svarar Hildur, spurð hvort hún telji sitt sæti þokkalega öruggt til þingsætis.

Hún segist hlakka til að snúa sér að næstu verkefnum. Hildur varði gærkvöldinu í faðmi fjölskyldu og vina sem lögðu henni lið í framboðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert