Strekkingur víða um land

Spáð er norðanstrekkingi eða allhvössum vindi víða um land.
Spáð er norðanstrekkingi eða allhvössum vindi víða um land. Kort/mbl.is

Í dag gengur í norðan og norðvestan 10 til 18 metra á sekúndu fyrir hádegi. Rigning verður á norðanverðu landinu og slydda eða snjókoma til fjalla.

Styttir upp sunnan til á landinu, bjart með köflum síðdegis og hiti verður á bilinu 7 til 15 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Lægir og styttir upp í nótt. Á morgun verður austlæg átt, 5-10 m/s, skýjað með köflum og úrkomulítið. Gengur í austan 10-15 sunnan til annað kvöld með dálítilli rigningu á þeim slóðum. Hiti verður bilinu 6 til 14 stig, hlýjast suðvestanlands.

Í athugsemdum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands kemur fram að kalt loft færist yfir landið með norðanátt í dag. Mögulega verður krap eða snjóþekja fram eftir degi á sumum fjallvegum á Vestfjörðum og Norðvesturlandi, en í kvöld á norðaustanverðu landinu.

Spáð er norðanstrekkingi eða allhvössum vindi (10-18 m/s) víða um land í dag. Ökumönnum á farartækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi (t.d. hjólhýsum eða húsbílum) er bent á að kanna aðstæður áður en lagt er af stað (til dæmis mælingar á vefsíðu Vegagerðarinnar).

Veðurvefur mbl.is

mbl.is