Fjórir flokkar berjist fyrir þjóðgarðinum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðflokksmenn töluðu lengi um Hálendisþjóðgarðinn á Alþingi og gagnrýndu þar einkum samráðsleysi nefndarinnar og fyrirhugað alræðisvald umhverfisráðherra.

Þeir bentu á að enn væru fjölmörg óleyst mál varðandi rekstur og fyrirkomulag annarra þjóðgarða á Íslandi og rétt væri að byrja á þeim áður en ráðist yrði í að friðlýsa fleiri svæði og loka þeim þannig fyrir landsmönnum.

„Maðurinn gefur náttúrunni og landslaginu meira gildi, hann er hluti af náttúrunni þótt hann sé stundum álitinn aðskotahlutur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í pontu Alþingis í dag.

Sigmundur gagnrýndi að málið hafi aldrei hlotið lýðræðislegan undirbúning. Umhverfisráðherra hafi fengið neikvæð viðbrögð við áætlunum sínum og gífurlegan fjölda umsagna, þar sem nefndin sagðist bara einfaldlega ósammála. Aldrei hafi staðið til að skoða ólík sjónarmið heldur aðeins hafi verið pláss fyrir eina skoðun.

Reikningsskil gagnvart kjósendum

Sigmundur telur ríkisstjórnina vera ríkisstjórn umbúða en ekki innihalds og að flokkar hennar skoði mál aðeins út frá því hvort þau séu líkleg til vinsælda eða ekki.

Hann benti á að áform um Hálendisþjóðgarð hafi verið skýr og fyrirvaralaus í stjórnarsáttmálanum. Það hafi verið barátta Miðflokksins, eins síns liðs, sem leiddi til umræðu um innihald málsins og varð til þess að skjálfti kom í stjórnarflokkana.

Sú ákvörðun að afgreiða ekki málið heldur senda það til baka í ríkisstjórn til frekari vinnu sé einungis tekin til þess að þurfa ekki að standa reikningsskil gagnvart kjósendum.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins. Kristinn Magnússon

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, fullyrti að ef sama ríkisstjórn heldur áfram á næsta kjörtímabili muni málið verða að veruleika. „Það eru þá fjórir flokkar sem vilja berjast fyrir þjóðgarðinum. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Vinstri græn og Samfylkingin,“ sagði hann svo.

mbl.is