Loftpúði verður stofustáss

Ragna Sara Jónsdóttir er í draumastarfinu en þar nýtast bæði …
Ragna Sara Jónsdóttir er í draumastarfinu en þar nýtast bæði fyrri störf, nám, reynsla og áhugi á hönnun henni vel. mbl.is/Ásdís

Það eru nokkrir þræðir sem tvinnuðust saman og urðu til þess að ég stofnaði fyrirtækið FÓLK. Ég fékk mjög listrænt uppeldi hjá ömmu minni sem hélt nánast úti myndlistaskóla fyrir okkur barnabörnin. Þar fengum við að vatnslita, mála, sauma dúkkur og búa til hluti úr pappamassa. Við fengum að prófa allt þannig að ég hef alltaf haft þennan áhuga á sköpun,“ segir Ragna Sara og segir að áhuginn á hönnun hafi kviknað fyrir alvöru þegar hún bjó í Danmörku, en þar stundaði hún meistaranám í viðskiptum með áherslu á samfélagsábyrgð fyrirtækja og sjálfbærni í rekstri.

Ábyrgð á gæðunum

„Það voru mjög áhugaverðir hlutir að gerast á þessum tíma í Danmörku um aldamótin. Nýnorræna hönnunarbylgjan átti sér stað og fyrirtæki eins og HAY, Normann Copenhagen og Muuto voru stofnuð og ég fylgdist vel með,“ segir hún en Ragna Sara fékk vinnu hjá Landsvirkjun eftir heimkomuna árið 2008.

„Þegar ég kom heim var HönnunarMars að hefja göngu sína og áhugaverðir tímar á Íslandi. Ég tók eftir því þegar ég fór að skoða hönnun á Íslandi nánar að það gæti vantað hlekk í þá keðju sem á sér stað frá hugmynd og þar til hönnun er orðin að vöru í hillu verslana. Í of fáum tilvikum gat ég sem neytandi keypt íslensku hönnunina sem ég sá á HönnunarMars í hönnunarverslun. Ég fór að skoða þetta og mér fannst vanta vörumerki sem væri útgefandi og framleiðandi á hönnun, í samstarfi við íslenska hönnuði. Í fyrstu var hugmyndin að gera vefverslun sem myndi selja íslenska hönnun en ég sá að aðrir voru búnir að gera það og eins gæti ég ekki tekið ábyrgð á gæðunum. Ég ákvað því að stofna vörumerkið FÓLK og bauð hönnuðum til samstarfs til að hanna vörur inn í fyrirframgefna ramma, með umhverfis- og samfélagsmál að leiðarljósi. Við vinnum eftir sama viðskiptamódeli og flottu vörumerkin sem ég hafði áhuga á í Danmörku en bætum sjálfbærni og umhverfisvinklinum við í öllu okkar ferli.“

Hönnuðir hanna fyrir FÓLK

Að öllu jöfnu er FÓLK ekki með verslun, heldur selur vörur í hönnunarverslanir og er auk þess með vefverslun. Í sumar og þegar blaðamann bar að garði í vikunni er FÓLK hins vegar með pop-up-verslun á Hafnartorgi og því gott tækifæri til að skoða vörurnar með berum augum.

MULTI-vasinn er afar smart og kemur í nokkrum útgáfum og …
MULTI-vasinn er afar smart og kemur í nokkrum útgáfum og litum. Ljósmynd/Sunday & White Studio

„Okkar helstu viðskiptavinir eru til dæmis Epal, Hrím, Kokka, Módern, Rammagerðin, Garðheimar og fleiri. Þannig geta okkar kúnnar fundið vörur okkar, við hliðina á HAY og Normann í hönnunarverslunum! Svo erum við með tvær vefsíður, folkreykjavik.is og folkreykjavik.com, og þar getur fólk keypt þessar alíslensku hönnunarvörur,“ segir Ragna Sara og segir þau leggja áherslu á minni húsgögn og húsmuni. Einnig selur FÓLK vörur í erlendar hönnunarbúðir, eins og Finnish Design Shop, sem selur vörur sínar á netinu. 

Ragna Sara vinnur oft og tíðum þannig að innanhúss hjá FÓLKi er verkefnið mótað, með tilliti til notkunar eða efnis, og hönnuður valinn til að hanna vöruna.

„Hönnuðurinn kemur þá með tillögur út frá okkar fyrstu hugmyndum. Við höldum svo áfram að þróa hugmyndina í sameiningu þar til lokateikning er komin og þá tökum við boltann. Frumgerðir eru oftast gerðar hér á Íslandi en varan fer svo í framleiðslu erlendis því mjög oft reynist of dýrt að framleiða hér,“ segir Ragna Sara og segir þau vera með sjö hönnuði á sínum snærum.

Urban Nomad-hillurnar hafa slegið í gegn, en það var Jón …
Urban Nomad-hillurnar hafa slegið í gegn, en það var Jón Helgi Hólmgeirsson sem hannaði þær fyrir FÓLK. Ljósmynd/Sunday & White Studio

„Fyrsta verkefni FÓLKs var þannig að við báðum hönnuðinn Jón Helga Hólmgeirsson að hanna fyrir okkur hillu sem væri auðvelt að setja saman og taka í sundur og sem auðvelt væri að flytja á milli staða. Út úr því fæddist hillan Urban Nomad sem var fyrsta vara FÓLKs og hefur gengið gríðarlega vel,“ segir Ragna Sara og segir hönnuði vera, auk Jóns Helga, Theodóru Alfreðsdóttur, Ólínu Rögnudóttur, Rögnu Ragnarsdóttur, Fléttu: Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur og Tinnu Gunnarsdóttur.

Erum útflutningssproti

Vörunúmer FÓLKs eru nú um fimmtíu talsins og má þar finna kertastjaka, blómavasa, skálar, hillur af ýmsum toga, ljós og púða. Eins og fyrr segir eru vörurnar umhverfisvænar og jafnvel sumar búnar til úr gömlum hlutum eða endurnýttu efni.

Ragna Sara vinnur í nánu samstarfi við hönnuði og leggur …
Ragna Sara vinnur í nánu samstarfi við hönnuði og leggur aðaláherslu á sjálfbærni og endurnýtingu. mbl.is/Ásdís

„Við erum í örum vexti. Síðasta ár var auðvitað skrítið vegna faraldursins en þrátt fyrir það tókst okkur að nær þrefalda söluna. Við erum að halda áfram að þróa vörur og erum komin með einn starfsmann í fullt starf, hönnuðinn Heru Guðmundsdóttur. Annars er þetta fjölskyldufyrirtæki, enda erfitt að reka svona fyrirtæki án stuðnings fjölskyldunnar. Maðurinn minn, Stefán Sigurðsson, hefur verið hér innanbúðar til að stuðla að vexti fyrirtækisins. Við erum útflutningssproti og það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Ragna Sara og segir afar jákvætt og áhugavert að vinna í nánu samstarfi með mörgum erlendum aðilum á degi hverjum.

„Ég er í draumastarfinu. Það sameinar þörfina fyrir að skapa og svo að byggja eitthvað upp. Svo er frábært að það hafi tekist að sameina þekkingu mína á innleiðingu sjálfbærni og samfélagsábyrgðar inn í þennan geira hönnunar og framleiðslu.“

Hráefni alls staðar að hlaðast upp

Hluti af því verkefni var að FÓLK fékk Studíó Fléttu til þess að finna hráefni af bílapartasölu og hanna úr því vöru.

„Netpartar er ISO-14001 umhverfisvottuð bílapartasala, en eigandann, hana Aðalheiði, langaði að auka hlutfall bílaparta sem væru endurnýttir svo sem minnst fari til spillis. Við ákváðum að fara saman í málið og ég fékk hönnuðina Birtu og Hrefnu í Fléttu til að finna hráefni í Netpörtum sem við gætum nýtt í okkar hönnun og umbreyta þannig úrgangi í verðmæti. Stúdíó Flétta fór á stúfana og kom með nokkrar hugmyndir en lokaútkoman er þessi frábæri loftpúði,“ segir Ragna Sara og sýnir blaðamanni púða, eða eins konar pullu, sem búin er til úr loftpúða úr bíl.

Púðar þessir eru búnir til úr loftpúðum bíla og gömlum …
Púðar þessir eru búnir til úr loftpúðum bíla og gömlum sængum. Þeir hafa slegið í gegn. Ljósmynd/Sunday & White Studio

 „Þeir sem við gerðum fyrir HönnunarMars seldust strax upp. Það er hægt að nota þá á fjölbreyttan hátt og þeir eru vinsælir hjá börnum. Svo fengum við notaðar sængur hjá Rauða krossinum sem við notum sem tróð, þannig að það er líka endurunnið,“ segir Ragna Sara, en henni er greinilega mjög umhugað um umhverfismál.

„Ef við horfum á heiminn í dag er hráefni að hlaðast upp alls staðar; plast, textíll, málmar og gler. Það er ekki unnið nógu hratt í því að umbreyta hagkerfi okkar úr línulegu yfir í hringrásarhagkerfi þannig að við erum að vinna í því og hugsa nýja leiðir til að nota þessi hráefni.“

Ítarlegt viðtal er við Rögnu Söru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 


Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »