Deildin ekki fyrir fólk undir 67 ára aldri

Ekki verður af hjúkrunardeild fyrir einstaklinga yngri en 67 ára …
Ekki verður af hjúkrunardeild fyrir einstaklinga yngri en 67 ára í Boðaþingi, en sú hugmynd hefur verið í vinnslu í nokkur ár. Ljósmynd/Hrafnista

Ekki verður af hjúkrunardeild fyrir einstaklinga yngri en 67 ára í Boðaþingi, en sú hugmynd hefur verið í vinnslu í nokkur ár. Á minnisblaði sem Aðalsteinn Sigfússon, sviðsstjóri velferðarsviðs Kópavogs, lagði fram 20. maí kemur fram að ákveðnar fyrirstöður komi í veg fyrir að hægt verði að ráðast í þetta verkefni.

Vill deild fyrir yngra fólk

Theódóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar í Kópavogi, hefur barist fyrir opnun deildarinnar í Boðaþingi og er því afar vonsvikin með þessa niðurstöðu.

„Við þyrftum að vera með hjúkrunarheimili fyrir alla aldurshópa,“ segir Theódóra en hún vill að hjúkrunarheimili bjóði upp á úrræði fyrir einstaklinga yngri en 67 ára sem þurfa á langtíma fjölþættri þjónustu að halda.

Theódóra bendir á að ekki sé viðunandi að ungir einstaklingar þurfi að dvelja til lengri tíma á hjúkrunarheimilum þar sem fólk stoppar að meðaltali í tvö ár enda skapi mikil endurnýjun einstaklinga ekki gott félagslegt umhverfi.

Í upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands kemur fram að á árinu 2018 hafi um það bil 139 einstaklingar yngri en 67 ára búið á hjúkrunarheimilum en af þeim voru einungis 20 sem dvöldu á sérhæfðum hjúkrunardeildum fyrir yngra fólk.

Leggur Theódóra áherslu á að ekki sé lagt til að þetta verði eina úrræðið fyrir einstaklinga sem þurfi á fjölþættri þjónustu að halda heldur sé frekar verið að fjölga þeim möguleikum sem þessu fólki bjóðast.

Öll af vilja gerð en mörg ljón í veginum

Í minnisblaðinu frá Aðalsteini Sigfússyni kemur fram að bæði Kópavogsbær og heilbrigðisráðuneytið séu öll af vilja gerð þegar komi að opnun hjúkrunardeildar fyrir einstaklinga yngri en 67 ára. Hins vegar séu ákveðin atriði sem komi í veg fyrir að hægt sé að koma þessu umfangsmikla verkefni í Boðaþingi á laggirnar. Segir meðal annars í minnisblaðinu að hér sé „um nýbreytni að ræða og mörg ljón í veginum vegna mikils flækjustigs laga og reglugerða, auk þess sem vinna þarf að samningagerð sveitarfélaga þannig að hlutverk þeirra í milli og greiðslur hvað þetta fyrirkomulag varðar fari ekki á milli mála.“

Hefur því verkefninu verið frestað um ókominn tíma í ljósi þess að óæskilegt þykir að opnun deildarinnar tefji fyrir uppbyggingu á hjúkrunarheimilinu í Boðaþingi.

Sjá nánari umfjöllun í Morgunblaðinu í dag, 14. júní. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »