Sprenging í sumarhúsaeign vegna Covid

Íslendingar eru óðir í sumarhús.
Íslendingar eru óðir í sumarhús. mbl.is

Áhugi landsmanna á sumarhúsaeign hefur stóraukist eftir að heimsfaraldur kórónuveiru hófst snemma á síðasta ári. Í júní í fyrra og í apríl á þessu ári voru slegin met í fjölda undirritaðra kaupsamninga. Í hagsjá Landsbankans segir að með fækkun utanlandsferða í fyrra virðist sumarhúsaeign hafa orðið vinsælli. 

Viðskipti með sumarhús fóru úr því að vera um 17 talsins á mánuði á fyrsta fjórðungi síðasta árs upp í að jafnaði 52 á mánuði á öðrum ársfjórðungi. Slík aukning hefur ekki mælst á jafn skömmum tíma frá upphafi gagnasöfnunar.

Mesti fjöldi sem hefur mælst í stökum mánuði var í júní í fyrra þegar 73 kaupsamningar voru undirritaðir. Nýjustu gögn eiga við um aprílmánuð í ár en þá voru 62 samningar undirritaðir samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár og virðist áhuginn því enn vera mikill.

Verðhækkanir ekki miklar

Það sem vekur athygli við þennan mikla áhuga á sumarhúsaeign, samkvæmt hagsjá Landsbankans, er sú staðreynd að verðhækkanir á sumarhúsum eru ekki umtalsverðar. Aðeins hafa sumarhús hækkað um 10% í verði milli ára en sumarhúsaeign hefur aukist um 58% á sama tíma. 

Af þeim u.þ.b. 14.500 sumarhúsum sem eru skráð hér á landi er ríflega helmingur á Suðurlandi og 21% á Vesturlandi.

Af ein­staka sveit­ar­fé­lög­um eru bú­staðir flest­ir í Gríms­nes- og Grafn­ings­hreppi þar sem sum­ar­hús eru um 3.100 tals­ins, eða tæplega fjórtán sinn­um fleiri en íbúðar­hús. Svipaða sögu er að segja um Blá­skóga­byggð þar sem sum­ar­hús­in eru um 2.100 tals­ins en íbúðir tæplega 500.

Á Vest­ur­landi eru sum­ar­hús­in flest í sveit­ar­fé­lag­inu Borg­ar­byggð, um 1.500 tals­ins á móti tæp­lega 1.900 íbúðum. Það er því ljóst að í sumum sveitarfélögum landsins er uppistaða byggðar fyrst og fremst sumarbústaðir. Á landinu öllu er þó um það bil einn bústaður fyrir hverjar 10 íbúðir.

mbl.is