Vill ekki stytta afgreiðslutíma skemmtistaða varanlega

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir það ekki standa til að afgreiðslutími skemmtistaða verði styttur varanlega, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur kallað eftir slíkum breytingum vegna fenginnar reynslu í heimsfaraldri kórónuveirunnar. 

Haft er eftir Degi í Fréttablaðinu að verði afgreiðslutími skemmtistaða styttur færist skemmtanahaldið einfaldlega út á stræti, torg, í íbúðahverfi og heimahús. Það hafi sýnt sig að styttri afgreiðslutími þýði ekki endilega aukið öryggi, færri afbrot eða meira næði. 

Dagur segist aftur á móti fagna því ef fólk hefji skemmtanahald fyrr á kvöldin og fari þá jafnframt fyrr heim til sín. 

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að ekki hafi borist formlegt erindi til borgarráðs um samtal við lögreglu vegna afgreiðslutíma.

mbl.is